Ræktun á hampi eykst í löndum Evrópusambandsins
Í nýútgefinni skýrslu Iðnaðarhampssamtaka Evrópu (EIHA) hefur ræktun á iðnaðarhampi aukist mikið síðastliðin fimm ár. Mest er framleiðslan á trefjum, fræjum til framleiðslu á hampolíu og blómum til lyfjagerðar.
Samkvæmt skýrslunni jókst ræktun á iðnaðarhampi mikið á árunum 2011 til 2015 enda hampjurtin til margra hluta nytsamleg. Trefjar sem unnar eru úr stönglum plöntunnar eru notaðar í textíliðnaði, til pappírsgerðar, og til framleiðslu á einangrun í hús og bifreiðar. Úr fræjunum, sem líkjast litlum hnetum, er unnin olía til matargerðar og þau eru seld sem gæludýrafóður. Blómin eru aftur á móti mest notuð til lyfjagerðar.
Ræktun á iðnaðarhampi var leyfð í flestum löndum Evrópusambandsins á árunum 1993 til 1996. Árið 1994 var hampur ræktaður á um 8.000 hekturum innan ESB en ræktunin var komin í 25.000 hektara á síðasta ári og talið að hún muni aukast talsvert á komandi árum.
Stærstu framleiðendur iðnaðarhamps í Evrópu eru Frakkar og Hollendingar en Rúmenía fylgir þar fast á eftir. Mestur er vöxturinn í framleiðslu á hampfræjum til olíugerðar og blómum fyrir lyfjaiðnaðinn.
Skýrslan sem kallast The European Hemp Industry: Cultivation, processing and applications for fibres, shivs, seeds and flowers var saminn í tengslum við þrettánda alheimsþing ræktenda iðnaðarhamps sem haldið var fyrir skömmu í Köln í Þýskalandi. Um 250 þátttakendur frá 40 löndum sóttu þingið.