Raforka verði niðurgreidd
Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um niðurgreiðslu á raforku til garðyrkjubænda.
Lagt er til að við búvörulög nr. 99/1993 verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða um að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 58. gr. skuli ríkissjóður niðurgreiða garðyrkjubændum allan kostnað við flutning og dreifingu raforku vegna framleiðslu garðyrkjuafurða á árunum 2025, 2026, 2027 og 2028, að þeim skilyrðum uppfylltum að orkukaupin séu vegna atvinnustarfsemi. Niðurgreidd raforka sé sérmæld og fari einungis til loftræstingar eða lýsingar plantna til að örva vöxt þeirra. Framleiðslan sé ætluð til sölu og að ársnotkun sé meiri en 100 MWst á ári.
Heildarfjárhæð niðurgreiðslna skv. 1. málsl. skuli ekki takmarkast við heildarframlög í samningum sem íslenska ríkið geri við framleiðendur garðyrkjuafurða
Jafnframt skuli ríkissjóður niðurgreiða garðyrkjubændum helming kostnaðar vegna uppbyggingar á dreifikerfi raforku til garðyrkjubýla, gróðrarstöðva og garðyrkjustöðva á árunum 2025, 2026, 2027 og 2028.
Ráðherra verði heimilt að fela Matvælastofnun eða öðrum opinberum aðila að annast faglega umsjón með niðurgreiðslu á kostnaði við flutning og dreifingu raforku, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laga.
Flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er Inga Sæland, Flokki fólksins og er þetta í fimmta sinn sem hún er flutt. Bændasamtök Íslands lýstu í umsögn á 153. löggjafarþingi yfir stuðningi við frumvarpið.