Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Úkraínskt kjúklingakjöt er m.a. unnið, flutt inn og pakkað undir merkjum Esju gæðafæðis og endurselt í Nettó.
Úkraínskt kjúklingakjöt er m.a. unnið, flutt inn og pakkað undir merkjum Esju gæðafæðis og endurselt í Nettó.
Fréttir 23. febrúar 2023

Segjast fylgja settum leikreglum

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Kjötvinnslan Esja gæðafæði ehf., sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, flutti inn um 40 tonn af frosnu úkraínsku kjúklingakjöti árið 2022. Má meðal annars nálgast það í matvöruverslunum undir vörumerkjum fyrirtækisins. Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðastöðvar KS, segir að auk þess kaupi fyrirtækið mikið af úkraínskum kjúklingi frá öðrum innflytjendum.

Ágúst Andrésson. Mynd / H.Kr.

„Þegar við sáum það á heimasíðu skattsins að það væri verið að opna á innflutning frá Úkraínu fórum við að kynna okkur möguleikana. Við vissum að Úkraína væri mjög framarlega í kjúklingarækt og einn af stærri framleiðsluaðilum fyrir Evrópumarkað. Við höfum verið að flytja inn kjúkling frá Litáen og skoðuðum hvort við gætum nálgast sambærilega eða betri vöru á góðu verði í Úkraínu. Við erum alltaf að leita hagkvæmustu leiða til að geta verið samkeppnishæfir á markaði með góða þjónustu, gæðavöru og gott verð,“ segir Ágúst.

Esja gæðafæði og Kjötbankinn eru undir sama hatti og hafa verið að vinna úr um 250 tonnum af innfluttum kjúklingi á ári, bæði sem keypt er af öðrum innflytjendum sem og verið flutt inn beint. Fyrirtækið flutti inn um 40 tonn af frosnu kjúklingakjöti frá Úkraínu sem komu, að sögn Ágústar, í tveimur gámum hvort sínum megin við jólin. Kjötið var unnið hér á landi og endurselt.

„Við erum með fullvinnslu, þannig erum við bæði að marinera, forelda læri og bringur, snitsel og fleira. Við seljum þetta til mötuneyta, veitingahúsa og verslana um allt land. Það er allur gangur á því undir hvaða vörumerkjum úkraínska kjötið er merkt, ekki verið nein ein lína í því,“ segir hann.

Segjast hafa greitt toll

Í tilkynningu Esju gæðafæðis kemur fram að greiddur hafi verið fullur tollur af kjötinu. „Við fengum eins tollafgreiðslu af þessum gámi eins og öðrum vörum sem við flytjum inn. Við gætum farið fram á endurgreiðslurétt en höfum tekið ákvörðun um að borga fullan toll af þessu eins og öðru,“ segir Ágúst.

Samkvæmt uppgefnum tölum Hagstofunnar var meðalinnflutningsverð af frosnu kjúklingakjöti frá Úkraínu árið 2022 um 580 kr/kg. Ef greiddur hefur verið fullur verð- og magntollur af vörunni hefur meðalverð á kíló reynst ríflega 1.200 krónur. Gera má ráð fyrir að einhver kostnaður hljótist af flutningi, vinnslu og endurpökkun kjötsins, en það mátti finna í Nettó á minna en 2.000 kr./kg.

Inntur eftir því hvernig þeim tækist að halda kílóverði svo lágu í verslunum svarar Ágúst:

„Skýringin er einfaldlega sú að við kaupum mikið af úkraínskum kjúklingi af öðrum innflytjendum.“

Kjúklingurinn verði upprunamerktur

Ágúst segir kjötið vera keypt frá framleiðanda sem lúti öllum kröfum sem gerðar eru til kjöts á Evrópumarkaði. „Þegar við veljum okkar birgja, hvort sem það er í þessu eða öðru kjöti, þá gerum við ákveðnar kröfur um gæði. Þessi vara er ekkert frábrugðin annarri vöru sem við erum að flytja inn.“

Hann bætir því við að úkraínsk yfirvöld sjái um eftirlit með framleiðslunni þar í landi. „Við fáum alla þá pappíra með sendingum sem þarf til að uppfylla kröfur sem gerðar eru um innflutning. Ef eitthvað vantar þá er það stöðvað í tolli.“

Ekki er skylda að upprunamerkja matvöru sé hún unnin. Ágúst segir að í ljósi umræðunnar um úkraínska kjúklingakjötið hafi komið til tals hjá fyrirtækinu að merkja uppruna þess sérstaklega.

„Ég held það væri jafnmikill, ef ekki meiri, sölupunktur að merkja kjötið Úkraínu. En þetta er matsatriði í hvert sinn.“

Eftir ábendingar segir Ágúst að nú verði hægt að nálgast upprunamerktan úkraínskan kjúkling í Nettó frá fyrirtækinu.

Fleiri fyrirtæki með misvísandi merkingar

Hann bendir þó á að ekki sé verið að brjóta neinar reglur með því að geta ekki uppruna ef kjöt er flutt inn og unnið hér á landi.

„Reglan hefur verið að ef kjúklingur er sannanlega íslensk framleiðsla þá er hún merkt þannig. Ef hann er fluttur inn er upprunaland yfirleitt ekki tekið fram. Við fylgjum bara þeim leikreglum sem settar eru. Menn geta svo haft á því skoðun hvort það sé rétt að hægt sé að flytja hér inn kjöt í stórum stíl og ekki geta uppruna. Samanber allan þann kjúkling sem fluttur er hingað til lands gegnum stóru innlendu kjúklingaframleiðendurna. Það sama má segja með allt nautahakk sem flutt er inn af Stjörnugrís sem hefur tekið mest til sín af EB tollkvóta að undanförnu og flutt inn efni sem fær enga íblöndun en er selt sem hamborgarar með íslenskum fánamerkjum á umbúðum. Slíkt er reyndar ekki í lagi,“ segir Ágúst.

Hann er þeirrar skoðunar að allt innflutt kjöt ætti að vera rekjanlegt til upprunalands, hvort sem það sé unnið eða ekki.

„Ég held að viðmið okkar reglna, er þetta varðar, séu teknar frá Evrópusambandinu og því vitum við ekki frekar hvort vara sem þaðan kemur og hefur fengið meðhöndlun, íblöndun eins og t.d kjúklingabringur, hvort uppruninn sé í raun innan Evrópusambandsins eða jafnvel einhvers staðar annars staðar frá eins og t.d. Taílandi. Eins halda margir að allt sem flutt er inn frá Danish Crown sé frá Danmörku, enda merkt danska fánanum, þegar betur er að gáð kemur fram í smáaletri umbúðanna að þetta kjöt kemur frá mörgum öðrum löndum. Því eru þessi mál ekki einföld.“

Inntur eftir því hvort KS hyggist sýna frumkvæði með upprunamerkingum á innfluttum kjötvörum sínum segir hann slíkt í skoðun. „Í sumum tilfellum hefur það verið gert, eftir því sem við á, í samræðu við endursöluaðila,“ segir Ágúst.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...