Stelkur
Stelkur er nokkuð algengur meðalstór vaðfugl. Hann er að mestu farfugl og á sumrin eru stelkar algengir í graslendi, gjarnan órækt og mýrum þar sem þeir gera sér hreiður. Ef óboðinn gestur nálgast varpsvæðin þeirra eru þeir iðulega fyrstu fuglarnir til að fljúga upp og láta aðra vita. Þá setjast þeir gjarnan á háan punkt, t.a.m. þúfur, steina, girðingastaura, jafnvel trjátoppa, kalla í sífellu og rykkja hausnum upp og niður. Þeir gefa frá sér frekar hátt, hvellt hljóð sem heyrist víða og gerir öðrum fuglum viðvart ef hætta steðjar að. Fuglar úr nágrenninu bætast þá gjarnan í hópinn og hjálpa til við að reka óboðna gestinn í burtu. Auðvitað koma hinir fuglarnir að hjálpa til svo að óboðni gesturinn fari nú ekki að valda usla í þeirra eigin varplöndum, en stundum þegar lætin verða mikil gæti maður haldið að þeir vildu losna við óboðna gestinn bara til að losna við hávaðann í stelknum.