Tækniskólinn verður í Hafnarfirði
Fulltrúar stjórnvalda, bæjar- yfirvalda í Hafnarfirði og Tækniskólans undirrituðu á dögunum viljayfirlýsingu um byggingu framtíðarhúsnæðis fyrir skólann við Suðurhöfnina í Hafnarfirði.
Með nýrri skólabyggingu er ætlunin að sameina starfsemina undir einu þaki, í nútímalegu húsnæði sem uppfyllir þarfir skólans og nemenda hans. Í viljayfirlýsingunni er sammælst um að skipa fulltrúa í verkefnastjórn, rýna fyrirliggjandi þarfagreiningar og tillögur um fyrirkomulag eignarhalds og fjármögnun verkefnisins. Þá staðfestir Hafnarfjarðarbær vilja bæjaryfirvalda til að leggja fram stofnfjárframlag frá bænum í formi lóðar án kvaða og gjalda, ásamt beinu fjárframlagi samkvæmt nánara samkomulagi þar um. Stefnt er að því að niðurstaða greiningarvinnu liggi fyrir í lok nóvember 2021.