Tæpar 6 milljónir til viðhalds styrkvega í Húnaþingi vestra
Vegagerðin hefur samþykkt að úthluta 4 milljónum króna til styrkvega í Húnaþingi vestra til viðhalds samgönguleiða. Samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins var samþykkt að veita 1,8 milljónum króna til viðhalds styrkvega á árinu 2021 og hefur sveitarfélagið því 5,8 milljónir króna til ráðstöfunar. Landbúnaðarráð Húnaþings vestra fjallaði um málið á fundi nýlega og lagði fram tillögu um skiptingu fjárins. Samkvæmt henni verður 3 milljónum varið til afréttarvegar á Víðidalstunguheiði, til afréttarvega í Miðfirði fara 1.550.000 og 750 þúsund vegna afréttarvega í Hrútafirði. Þá er lagt til að vegna vegar yfir Brandagilsháls fari 200 þúsund krónur og 300 þúsund krónur vegna vegar upp á Vatnsnesfjall. Fjallskilastjórnir sjá um framkvæmdir á afréttarvegum hver á sínu svæði, en að öðru leyti er sveitarstjóra falið að fá verktaka í viðhald vegar yfir Brandagilsháls. Leggur landbúnaðarráð til að samræmt gjald verði fyrir vinnu við styrkvegi í sveitarfélaginu. Vinnu við styrkvegi á að ljúka fyrir fyrstu göngur í haust.