Upprunavísun á vörur frá Kjarnafæði
Fyrirtækið Kjarnafæði reið á vaðið með PDO upprunamerkingu á vörum sínum úr íslensku lambakjöti.
Eins og sagt var frá í síðasta Bændablaði fékk íslenska lamba- kjötið verndaða upprunatilvísun í Evrópu (PDO) og er þar með komið í hóp með þekktum evrópskum landbúnaðarafurðum á borð við parmaskinku og parmesan ost.
„Við erum að byrja að nota þetta merki og munum auka notkun þess jafnt og þétt í framhaldinu. Við erum afar stolt af því að vinna íslenskt lambakjöt í góðu samstarfi við bændur og fögnum því að þessi einstaka gæðavara fái viðurkenningu sem slík. Upprunamerki geta hjálpað til við að auka traust á vörum í síharðnandi samkeppni,“ segir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæði Norðlenska.
Markmiðið með merkingunni er að vernda vörur sem eru framleiddar og unnar á tilteknu landsvæði, með því að nota viðurkennda þekkingu staðbundinna framleiðenda og hráefni frá viðkomandi svæði.
„Það er alltaf styrkur í því að upplýsa viðskiptavininn um uppruna og eðli þeirrar vöru sem í boði er,“ segir Ágúst Torfi.