Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
„Flesta daga ársins ganga blóðtökuhryssurnar frjálsar, hluta úr ári með afkvæmum sínum, þar sem þær geta sýnt sitt eðlilega atferli,“ segir Sigríður Björnsdóttir hjá MAST. Mynd tengist ekki starfsemi blóðmerarbúskapar.
„Flesta daga ársins ganga blóðtökuhryssurnar frjálsar, hluta úr ári með afkvæmum sínum, þar sem þær geta sýnt sitt eðlilega atferli,“ segir Sigríður Björnsdóttir hjá MAST. Mynd tengist ekki starfsemi blóðmerarbúskapar.
Mynd / ghp
Fréttir 3. desember 2021

Úrbætur aðkallandi í blóðmerabúskap

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Líftæknifyrirtækið Ísteka og Matvælastofnun liggja undir ásökunum um vanrækslu við eftirlit á blóðmerabúskap eftir að myndskeið sem sýnir ámælisverð vinnubrögð við blóðtöku fylfullra hryssna fór í dreifingu á vefnum.

Blóðmerahald á sér 40 ára sögu hér á landi en hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Myndbandið er til rannsóknar hjá Matvælastofnun og Ísteka hefur hafið vinnu við úrbætur á eftirliti sínu.

Í heimildarmyndinni, sem dýraverndarsamtökin AWF/TSB (Anmial Welfare Foundation / Tierschutzbund Zurich) birtu á vefnum þann 19. nóvember sl., sjást viðhöfð vinnubrögð og aðstæður sem virðast augljóslega stangast á við starfsskilyrði Matvælastofnunar um blóðtöku úr fylfullum hryssum samkvæmt reglugerð um velferð hrossa.

Rannsókn hafin

Sigríður Björnsdóttir, sérgreina­dýralæknir hrossa hjá Matvæla­stofnun (MAST), segir málið enn á rannsóknarstigi hjá stofnuninni þar sem m.a. er unnið að atvikagreiningu.

„Við höfum sent dýraverndarsamtökunum bréf og beðið um meiri gögn frá þeim og kallað eftir óklipptum myndböndum.“
Hún segir það skilyrði fyrir starfseminni að blóðtakan sem slík sé ásættanleg út frá dýravelferð og hún hafi alla jafna reynst vera það í þeirra eftirliti.

„Myndbandið sýnir allt aðra mynd og hefur eðlilega valdið tilfinningalegu uppnámi hjá öllu fólki sem lætur sig dýravelferð varða. Matvælastofnun er að rannsaka myndbandið mjög nákvæmlega til að greina veikleika starfseminnar og eftirlitsins þannig að hægt verði að bæta þar úr.“

Eftirlitshlutverk MAST

Matvælastofnun sér um opinbert eftirlit með starfsemi búgreinarinnar hér á landi. Í frétt stofnunarinnar frá 22. nóvember sl. segir að eftirlitið sé áhættumiðað og í forgangi. Það hafi aukist samhliða vexti greinarinnar.

Eftirlitið er tvíþætt, annars vegar með sjálfri blóðtökunni en hins vegar með fóðrun og umhirðu hryssnanna að vetrarlagi.
„Flesta daga ársins ganga blóðtökuhryssurnar frjálsar, hluta úr ári með afkvæmum sínum, þar sem þær geta sýnt sitt eðlilega atferli,“ segir Sigríður.
MAST heimsækir 40% starfsstöðva á ári, 20% meðan á blóðtöku stendur og önnur 20% fá heimsóknir eftirlitsmanna yfir vetrartímann.

Í leiðbeiningum MAST um skilyrði fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum segir að aldrei megi taka meira en 5 lítra af blóði vikulega úr hverri hryssu og að hámarki í 8 vikur, að hver dýralæknir megi ekki hafa fleiri en 4 hryssur í blóðtöku samtímis og ekki skuli vera fleiri en 100 hryssur með folöldum í hverjum blóðtökuhópi. Einnig segir að ef blóðtakan veldur hryssu þjáningu eða ógnar velferð hennar skuli dýralæknir umsvifalaust hætta blóðtöku á viðkomandi hryssu.

Innt eftir aðbúnaðarkröfum segir Sigríður að sömu kröfur séu gerðar um fóðrun og umhirðu blóðtökuhryssna og annarra hrossa í landinu að því undanskildu að ríkari krafa er gerð til ríflegs holdafars við blóðtöku (holdastig 3,5) og eftirlitið er tíðara.
Hins vegar eru harðari viðbrögð við alvarlegum frávikum þar sem ekki má taka blóð úr hjörðum sem ekki hafa verið fóðraðar með viðunandi hætti.
Sigríður segir að fóðrun og umhirða blóðtökuhrossa hafi batnað mikið á síðustu árum.

„Þar held ég að aukið eftirlit og eftirfylgni skipti máli en einnig betri afkoma í búgreininni. Það skilar sér til hrossanna.“
Blóðtakan sjálf er hins vegar á ábyrgð Ísteka og dýralæknir á þeirra vegum framkvæmir hana. MAST gerir kröfur um virkt innra eftirlit Ísteka með velferð hryssnanna á blóðtökutímabilinu og árlega ­skýrslu þar að lútandi.

Veikleiki í eftirlitinu

Sigríður segir að eftirlitsmenn MAST hafi ekki séð svo grófa meðferð á hrossum við blóðtöku og sjást í myndbandinu.

„Myndbandið hefur eðlilega valdið tilfinningalegu uppnámi hjá öllu fólki sem lætur sig dýravelferð varða,“ segir Sigríður. Myndir/Skjáskot úr myndbandi AWF/TSB

„Við höfum alltaf gert okkur grein fyrir því að þrátt fyrir að við mætum í óboðað eftirlit þá geti aðili látið af slæmri háttsemi um leið og hann sér eftirlitsmann mæta. Sá veikleiki opinberast að einhverju leyti í myndbandinu sem við verðum að bregðast við. En einmitt þess vegna hefur mikið verið lagt upp úr innra eftirliti fyrirtækisins, sem á alltaf að vera til staðar og sem líka hefur verið aukið á síðustu árum með dýravelferðarfulltrúa sem fer milli starfsstöðva.“

Hún vill leiðrétta misskilning um að MAST hafi ekki fjárheimildir til að auka eftirlitið.

„Það er ekki rétt. MAST inn­heimtir eftirlitsgjöld af eftirlitsþega, sem er Ísteka þegar um blóðtöku er að ræða, annars umráðamaður hryssnanna.“

Hvað er PMSG?

Lífvirka efnið equine chorionic gondotropin, skammstafað eCG, er í daglegu kallað PMSG sem er skammstöfun á pregnant mare serum gonadotrophin. Þetta er hormón sem frumur í fósturhimnu fylfullra mera mynda. Meginhlutverk hormónsins er að hvetja til myndunar gulbúa og stuðla að því að þungun viðhaldist. PMSG mælist í fylfullum hryssum að jafnaði frá um 40. degi meðgöngu og styrkur hans vex fram að degi 60. Eftir það fer hann lækkandi fram að degi 120.

Hér á landi er blóðtöku­tímabil frá síðustu viku júlí fram til 5. október. Frjósemishormónin eru hreinsuð úr blóðinu hjá Ísteka og úr þeim búin til afurð sem seld er úr landi. Efnið er hægt að nota til að stilla gangmál og örva þroska eggbúa í öðrum dýrategundum en hrossum, s.s. í svínum, nautum og kindum.

Vöxtur blóðmerarbúskapar

Tilraunir til blóðsöfnunar úr fylfullum hryssum til framleiðslu á PMSG á Íslandi hófst hér á landi á vegum fyrirtækisins G.Ólafssonar árið 1979. Þá var blóð tekið úr um 80 fylfullum hryssum í Skagafirði. Árið 1980 var tekið blóð úr 680 hryssum víðs vegar um landið og árið 1981 voru hryssurnar liðlega 1.000 talsins.

Engar opinberar tölur eru fyrir hendi um línulegan vöxt og umfang starfseminnar frá upphafi. Samkvæmt upplýsingum frá Ísteka hefur meðalársaukning hrossa síðustu 10 ár verið um 16%.

Staðan í dag er þó skýr. Á vefsíðu Ísteka kemur þó fram að árið 2020 hafi fyrirtækið verið í samstarfi við 99 bændur og velta fyrirtækisins hefði verið 1,7 milljarðar króna. Á vefsíðu Matvælastofnunar kemur fram að í ár hafi 5.383 hryssur verið nýttar í blóðtöku á 119 bæjum.

Afkoma bænda og Ísteka

Í allmörgum tilfellum er blóðmerabúskapur meginafkoma þeirra bænda sem hana stunda. Afkoman byggist á því afurðaverði sem Ísteka greiðir fyrir blóðið.

Töluverðra tekna má vænta af búskap með blóðmerar. Samkvæmt upplýsingum frá Ísteka er samið við bændurna um afurðaverð til langs tíma þar sem verðhækkanir koma fram ár frá ári. Núgildandi verðskrá gildir út árið 2023. Einingaverð (ein blóðgjöf einnar hryssu) á komandi söfnunartímabili er 9.864-13.016 kr. án vsk. Meðalhryssa er því að gefa um 70.000 kr. á ári fyrir blóð, góð hryssa um 100.000 kr. Verðmæti folalds bætist svo við.
Umfang framleiðslu PMSG hér á landi er ekki opinber en samkvæmt starfsleyfisumsókn Ísteka þarf um 600.000 lítra af blóði til að framleiða 20 kg af PMSG. Miðað við fjölda hryssa má þó gróflega áætla að unnið sé úr 150–200.000 lítrum af blóði.

Básar á ábyrgðarsviði bóndans

Blóðtökubásar og önnur blóðtökuaðstaða er á ábyrgðarsviði bóndans samkvæmt gæðahandbók sem bændur í þjónustusamningi við Ísteka fá.

Þar eru tilteknir nokkrir hönnunar­­punktar að gerðum sem leiða að blóðtökubásum og finna má teikningu af blóðtökubás til leiðbeiningar og hvernig aðstaða sé æskileg, s.s. að básinn sé hlutfallaréttur og veiti aðhald, fjalir séu settar fyrir aftan hryssu, hún sé með múl og band sé yfir herðakamb. Tiltekið er að bóndi eða annar ábyrgðarmaður eigi að sjá um að mönnun sé nægjanleg til að blóðtakan geti gengið snurðulaust fyrir sig og biðtímar séu ekki óhóflegir.

Blóðtökubásar og önnur blóðtökuaðstaða er á ábyrgðarsviði bóndans. Myndir/Skjáskot úr myndbandi AWF/TSB

Arnþór segir í tilsvörum að smíð bása geti verið ýmiss konar og útlit mismunandi. Blóðtökubás þurfi í öllum tilvikum að halda vel utan um hryssuna. Endurunnið efni er oft notað og slys í básum séu fátíð.

Alþjóðlega staðla skortir um starfsemina

Í fræðigrein um velferð hrossa sem notuð eru í framleiðslu á PMSG, sem birtist í tímaritinu Animals í desember árið 2019, kemur fram að erfitt sé að fylgjast með starfseminni þar sem engir alþjóðlegir staðlar eða reglugerðir liggi fyrir um slíka starfsemi.

Þó sé vitað að blóðsöfnun eigi sér aðallega stað í Úrúgvæ, Argentínu, Íslandi, Rússlandi, Mongólíu og Kína.

Magn blóðs sem safnað er sé mjög breytilegt milli aðila og landa. Til dæmis þekkist það að eyða fóstri hryssunnar á nítugasta degi meðgöngu á sumum stöðum þar sem ekki sé þörf á frekari meðgöngu eftir að PMSG framleiðsla hryssunnar hætti. Það sé gert svo hægt sé að endurtaka þungun sömu hryssu tvisvar á ári og ná þá fram tvöfaldri framleiðslu blóðs. Slík meðhöndlun er bönnuð með öllu hér á landi.

Höfundar greinarinnar benda á að án alþjóðlegra staðla og reglugerða með starfsemi blóðmerabúskapar sé erfitt að móta heilsteypt eftirlitskerfi. Löndin eigi það til að hafa sínar innanlandsreglur en í mörgum tilfellum séu þær ekki bindandi, heldur frekar ráðleggjandi.

Ábyrgðin hjá umráðamönnum

Í yfirlýsingu frá Dýralæknafélagi Íslands um málefnið hvetja þau til gagnrýnnar umræðu um þætti er varðar umgjörð og starfsskilyrði greinarinnar.

Í yfirlýsingunni spyr Bára Eyfjörð Heimisdóttir, formaður DÍ, hvort umsvif búgreinarinnar hafi aukist það mikið að ekki sé hægt að tryggja ásættanlega umgjörð á búunum og þá um leið tryggja nægjanlegt eftirlit með greininni. Einnig veltir hún þar fyrir sér hvort gerðar séu nægjanlegar kröfur til eigenda um reynslu og þekkingu þeirra starfsmanna sem starfa á búunum þegar kemur að umgengni við dýr og velferð þeirra. Þá er spurt hvort ekki sé þörf að endurskoða ramma búgreinarinnar betur og er þar nefnt sérstaklega fjölda dýra í hóp, fjölda dýra sem dýralæknir getur sinnt á hverju tímabili.

„Mikilvægi þess að hafa góðan ramma og skýr starfsskilyrði ásamt öflugu eftirliti af hálfu hins opinbera er óumdeilt. Hins vegar skal aldrei horft fram hjá ábyrgð eiganda í slíkum málum. Ábyrgðin og sökin er fyrst og fremst hjá þeim sem eru umráðamenn og eigendur viðkomandi dýra.
Ábyrgð dýralækna sem vinna við blóðtöku úr hryssum er einnig skýr, þeim ber skylda til að hafa velferð dýranna í fyrirrúmi, leiðbeina eigendum eða stöðva blóðtökuna ef aðbúnaður og framkvæmd er ábótavant og gera Matvælastofnun viðvart. Dýralæknafélag Íslands beinir því til dýralækna að sýna ábyrgð í störfum sínum og grípa inn í aðstæður þegar þess gerist þörf,“ segir í yfirlýsingu Dýralæknafélagsins sem lýkur þannig:

„Vitundarvakning og umræða um þá óásættanlegu meðferð á dýrum sem við sjáum í umræddu myndskeiði er nauðsynleg.“

Úrbætur hjá Ísteka

Arnór Guðlaugsson, framkvæmda­stjóri Ísteka, segir að eftir birtingu myndbandsins sé ljóst að alvarleg atvik er varðar dýravelferð hafi ekki sést í núverandi eftirliti fyrirtækisins. Unnið sé að úrbótum á eftirlitinu samkvæmt töflu sem birtist hér:

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...