Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Tilraunastöðin er fyrst og fremst rannsóknastofa á háskólastigi og þar fara fram rannsóknir og greiningar á dýrasjúkdómum. Þar verður haldinn Vísindadagur 20. apríl í tilefni af 70 ára afmæli stöðvarinnar.
Tilraunastöðin er fyrst og fremst rannsóknastofa á háskólastigi og þar fara fram rannsóknir og greiningar á dýrasjúkdómum. Þar verður haldinn Vísindadagur 20. apríl í tilefni af 70 ára afmæli stöðvarinnar.
Fréttir 11. apríl 2018

Vísindadagur á Keldum á sjötíu ára starfsafmæli

Höfundur: Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður og prófessor á Keldum
Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum fagnar sjötíu ára starfsafmæli í ár. Meðal viðburða er Vísindadagur sem fer fram 20. apríl 2018 á bókasafni Tilraunastöðvarinnar og er allan daginn. 
 
Tilraunastöðin er fyrst og fremst rannsóknastofa á háskólastigi og þar fara fram rannsóknir og greiningar á dýrasjúkdómum.
 
 
Vísindadagur
 
Vísindadagurinn hefur að undanförnu verið haldinn annað hvert ár. Hann hefur fest sig í sessi sem vettvangur fyrir kynningu á starfseminni og er nú haldinn í áttunda sinn. Ráðstefnan verður 20. apríl 2018 frá kl. 8.30-16 og er skipt upp í nokkra ráðstefnuhluta (sjá dagskrá). Meginefni ráðstefnunnar eru rannsóknir og vísindastörf á Keldum í tilefni sjötíu ára starfsafmælis, nú með almennara sniði en áður. 
 
Ráðstefnan verður haldin í bókasafni Tilraunastöðvarinnar og er aðgangur öllum heimill og að kostnaðarlausu. Á Vísindadegi Keldna 2018 verður fræðsluefni um helstu nýjungar í rannsóknum og greiningum á dýrasjúkdómum. Vísindadagurinn verður sam­ráðsvettvangur hagsmunaaðila, einkum dýralækna og starfsmanna í dýrasjúkdómageiranum. Stefnt er að því að koma saman starfsmönnum Keldna og starfandi dýralæknum á Íslandi á þessum vísindadegi. Níu fyrirlesarar munu sjá um fræðsluna, einn gestur erlendis frá, hinir eru sérfræðingar á Keldum. Erlendi gestafyrirlesarinn er Martin Krarup Nielsen frá University of Kentucky ? Maxwell H. Gluck Equine Research Center, sérfræðingur í sníkjudýrum, og hann mun halda tvo fyrirlestra. Í vísindanefndinni sem sér um undirbúning og skipulag eru: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Stefanía Þorgeirsdóttir og Þórunn Sóley Björnsdóttir.
 
Keldur í sjötíu ár
 
Meginviðfangsefni Tilrauna­stöðvarinnar er rannsóknir á dýrasjúkdómum og varnir gegn þeim. Sjötíu ár eru síðan rannsóknastarfsemi hófst á Tilraunastöðinni. 
 
Sigurður Ingvarsson.
Aðdragandinn var talsverður en áður fóru rannsóknir á búfjársjúkdómum fram á Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg. Ríkið keypti jörðina Keldur í Mosfellssveit með öllum mannvirkjum ásamt eyðibýlinu Keldnakoti árið 1941. Í fyrstu var aðstaðan á Keldum nýtt til dýrahalds en fyrsta rannsóknastofuhúsið var reist árið 1948. Forstöðumaður var Björn Sigurðsson læknir. Margt hefur breyst á þessum sjötíu árum. Ný smitefni greinast stöðugt og sumum hefur verið útrýmt með skilvirkum aðgerðum, byggðum á fræðilegum grunni. Fræðasviðin hafa þróast, nýjar aðferðir eru notaðar við greiningar og rannsóknir og nákvæmni og afkastageta margra rannsóknatækja hefur margfaldast. Samhliða þróun í tölvumálum og netvæðingu er upplýsingastreymi á auknum hraða. 
 
Rannsóknatæki hafa verið tölvuvædd og úrvinnsla gagna er öflugri og oft notendavænni en áður, má t.d. nefna stafræna myndgreiningu og greiningu á gögnum raðgreiningar erfðaefnis. Kostnaðurinn og fyrirhöfnin við uppbyggingu á nýrri aðferðafræði og úrvinnslu gagna getur verið talsverð. Því hefur Tilraunastöðin nýtt sér kjarnaaðstöðu og uppbyggingu á henni innanlands og erlendis og er í samstarfi við þessa aðila. Vaxandi lífsýnasöfn gefa aukna möguleika á nýjum samanburðarrannsóknum af ýmsum toga.
 
Starfsemin í dag
 
Tilraunastöðin starfar fyrst og fremst sem rannsóknastofa á háskólastigi og er eini vettvangurinn í landinu þar sem rannsóknir fara fram á dýrasjúkdómum á mörgum fræðasviðum. Rannsakaðir eru sjúkdómar í flestum spendýrategundum Íslands og allmörgum fugla- og fisktegundum. 
 
Tilgangur rannsóknanna er að efla skilning á eðli sjúkdóma og skapa nýja þekkingu. Heilbrigð dýr eru forsenda arðvænlegs landbúnaðar og fiskeldis. Einnig er mikilvægi heilbrigðra dýra sem bera ekki sjúkdóma í menn hvati að hagnýtingu rannsóknanna. Tilraunastöðin er í nánu samstarfi við atvinnulífið, má þar nefna landbúnað, fiskeldi, matvælaframleiðslu og líftækniiðnað. Starfið er rótgróið og gott dæmi um samlegðaráhrif vísindastarfs og atvinnulífs. 
 
Á Keldum er fagleg forysta á ýmsum fræðasviðum og mikil þekking og reynsla. Helstu fræðasviðin eru príonfræði, veiru­fræði, bakteríufræði, sníkju­dýrafræði, meinafræði, ónæmis­fræði, sameindalíffræði og tilraunadýrafræði. Tilraunastöðin er í öflugu tengslaneti vísindastarfs á alþjóðavísu. Rannsóknaverkefni síðustu ára eru m.a. ónæmis- og sjúkdómafræði fiska, sníkjudýra- og bakteríufræði, veirur í sauðfé og hestum, riða og skyldir sjúkdómar og sumarexem í hestum. 
 
Hvað er fram undan?
 
Ýmsar áskoranir eru á döfinni og mörgum áleitnum rannsókna­spurningum þarf að svara með nýjum nálgunum við sýnatöku og í aðferðafræði og úrvinnslu gagna. Framtíðarsýnin er skýr m.t.t. þess hvernig efla má fræðasviðin. Breytingar eru fram undan á loftslagi, ferðamannastraumi, flutningi fóðurs, matvæla og dýraafurða, vexti í fiskeldi, inngripum mannsins í vistkerfi o.fl. Þetta kallar á uppbyggingu innviða og aukinn viðbúnað og viðbragðsþjónustu. Mikilvægt er að við rannsökum hvaða þýðingu þessar breytingar hafa fyrir dýrasjúkdómastöðuna á Íslandi. 
 
Sigurður Ingvarsson, forstöðumaður og prófessor
á Keldum

Skylt efni: Keldur

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...