Vörslusviptu fé slátrað og kúabændur sviptir leyfi
Matvælastofnun hefur lagt stjórnvaldsákvarðanir á umráðamenn dýra undanfarna tvo mánuði.
Bóndi á Vesturlandi var sviptur vörslu á sauðfé 1. nóvember vegna brota á dýravelferð og var sú ákvörðun tekin að Matvælastofnun (MAST) kæmi fénu í sláturhús í staðinn fyrir að bóndinn sæi um það sjálfur. Frá þessu atviki er greint í yfirliti stofnunarinnar um stjórnvaldsákvarðanir á sviði eftirlits með dýravelferð og matvælaframleiðslu í nóvember og desember 2024.
Þar kemur einnig fram að bóndi á Vesturlandi hafi verið sviptur mjólkursöluleyfi vegna sóðaskapar í fjósi. Sá bóndi var jafnframt sviptur vörslu nautgripa sinna vegna skorts á getu.
Bóndi á Norðurlandi eystra var sviptur vörslu nautgripa sinna vegna alvarlegra brota á dýravelferð. Vörslusviptingin var síðar aftur- kölluð þar sem bóndinn lagði fram samning við utanaðkomandi bústjóra sem tók tímabundna ábyrgð á búrekstrinum. Fyrir liggur yfirlýsing um að búrekstrinum verði hætt eigi síðar en 1. mars 2025.
Stjórnvaldssekt að upphæð 326.400 krónur var lögð á sauðfjárbónda á Norðurlandi vestra vegna alvarlegra brota á dýravelferð í búskap sínum á vormánuðum 2024.
Kúabóndi á Vesturlandi var sviptur mjólkursöluleyfi vegna óþrifnaðar. Til þess að fá leyfið aftur þurfti hann, með endurteknum sýnatökum í tvær vikur, að sýna MAST fram á að mjólkurgæðin væru viðunandi. Jafnframt þurfti hann að sýna fram á að umhverfi mjaltaþjóns og allra rýma sem tengdust mjólkurframleiðslunni væru orðin hrein.
Stjórnvaldssekt að upphæð 300.000 krónur var lögð á fiskeldisfyrirtæki á Suðurlandi. Það hafði vanrækt að svipta eldisfisk meðvitund fyrir blóðgun eins og skylt er samkvæmt lögum.