Grifflur fyrir frjálsa fingur
Stærðir: S M L
Efni: 60 gr tvöfaldur lopi frá Þingborg eða Ístex. Sokkaprjónar 3.5 mm.
Saumnál.
Aðferð:
Grifflurnar eru prjónaðar í hring. Fitjið upp 32-36-40 lykkjur og prjónið stroff 2 sléttar og 2 brugðnar lykkjur 7-8-8 umferðir.
Þá er prjónað slétt, nema á handarbaki, þar er prjónuð brugðning áfram, þar sem 4 hver umferð í mynstri er prjónuð brugðin, mynstrið nær yfir 10 lykkjur og er endurtekið á handarbaki alla leið upp, þar til kemur að stroffi efst. Annað er prjónað slétt.
Prjónið nú þar til stykkið mælist 11-12-13 sm.
Útaukning fyrir þumli á hægri hendi:
Prj 3-4-5 sl lykkjur á eftir mynstri. Prjónið 1 lykkju, aukið um 1 lykkju, prj 1 lykkju, aukið um 1 lykkju, prj 1 lykkju.
Setjið prjónamerki til að afmarka þessar 5 lykkjur eða setjið þær á sér prjón, þær mynda þumalinn. Prjónið umferð á enda og prjónið 2 umferðir án útaukningar.
Prjónið 1 lykkju, aukið um 1 lykkju, prj 3 lykkjur, aukið um 1 lykkju, prj 1 lykkju, prj umferð á enda og 2 umferðir án útaukningar. Svona fjölgar lykkjunum á milli útaukninganna um 2 í hverri útaukningarumferð.
Þetta er endurtekið, þar til 15-17-19 lykkjur eru á þessum prjóni og alltaf prjóna 2 umferðir án útaukningar á milli, endið á 2 umferðum án útaukningar. Þá eru endalykkjurnar á þessum prjóni settar með hinum lykkjunum og þær sem eftir eru og mynda þumalinn eru settar á nælu og geymdar, alls 13-15-17 l.
Þá er prjónað áfram. Fjölgið um 1 lykkju í þumalkverk svo áfram verði sami lykkjufjöldi og áður og tengið aftur saman. Prjónið 2-2.5-3 sm og svo 4-4-5 umferðir brugðningu í lokin. Fellið af.
Útaukning fyrir þumli á vinstri hendi:
Hann er gerður eins og er prjónaður hinum megin við mynstur á handarbaki, látinn speglast og hafðar 3-4-5 lykkjur sléttar á undan mynstri.
Þumall:
Setjið lykkjurnar sem geymdar voru á 3 prjóna, takið upp 2 lykkjur í þumalgróf til að ekki myndist gat. Prjónið 3 umferðir og fellið svo af. Gangið vel frá öllum endum.
Þvottur:
Þvoið grifflurnar með volgu vatni og ullarsápu eða sjampói. Skolið vel og kreistið vatnið vel úr og leggið til þerris.