Laus kragi í stað trefils
Höfundur: Handverkskúnst
Með þennan hálskraga verður börnunum ekki kalt í vetur, þeir eru mjög góðir fyrir börn í stað trefils í kuldanum.
Ég prjónaði þessa kraga á barnabörnin mín og þeir hittu vel í mark og eru mikið notaðir.
Stærðir:
6-12 mán. (2-4 ára) 6-8 ára.
Garn: Drops Baby Merino, 50 (50) 100 gr.
Prjónar: 40 sm hringprjónn nr. 2,5-3
Tvöfalt perluprjón:
umf. 1: prjónið *1 lykkja sl. og 1 lykkja br.* endurtakið *-* út umf
umf. 2: prjónið br yfir sl lykkjur og sl yfir br lykkjur
umf. 3: prjónið *1 lykkja br. og 1 lykkja sl.* endurtakið *-* út umf.
umf. 4: prjónið br yfir sl lykkjur og sl yfir br lykkjur
Endurtakið umf. 1-4 upp stykkið
Fitjið upp á hringprjón nr. 2,5-3, 48 (56) 60 lykkjur og prjónið fram og til baka tvöfalt perluprjón þar til stykkið mælist 10 (10) 12 sm, leggið til hliðar og prjónið annað stykki eins þar til það er 12 (13) 15 sm. (ég hef bakstykkið aðeins síðara svo það kippist ekki upp þó svo barnið horfi niður).
Sameinið stykkin á hringprjónin = 96 (112) 120 lykkjur á prjóninum. Prjónið nú í hring, 2 umf slétt og síðan stroff 2 sl. og 2 br. þar til stroffið mælist 10 (12) 14 sm.
Fellið laust af með sl og br lykkjum.
Gangið frá endum.
Prjónakveðja,
Mæðgurnar í Handverkskúnst