Hressandi list í almannarýminu
Á Skagaströnd mega skapandi einstaklingar leggja gjörva hönd að því að hressa upp á ruslafötur í þorpinu. Ungmenni úr vinnuskólanum hafa sl. tvö sumur fengið að leika lausum hala við að myndskreyta tunnurnar sem hanga á ljósastaurum í þéttbýlinu. Gleðja þær nú augu fólks með margvíslegum leiftrandi og litríkum málverkum. Þannig vekja þær meiri athygli en ella sem gerir vonandi að verkum að fólk verði duglegra að nýta sér þær í stað þess að fleygja rusli á víðavangi.