Kjötsúpa
Matarkrókurinn 2. október 2024

Kjötsúpa

Höfundur: Hafliði Halldórsson

Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins en samt ekki. Allir og allar fjölskyldur eiga sína uppáhaldskjötsúpu og hefðirnar, uppskriftirnar og leynihráefnin leynast í hverju eldhúsi.

Enda er hin eina rétta uppskrift að kjötsúpu til á hverju einasta heimili. Sumir nota haframjöl í súpuna, aðrir skvettu af mjólk og oft færist hiti í leikinn þegar þessi mál ber á góma. Skoðanaskipti á kaffistofum og í heitum pottum sundlauganna um hina réttu uppskrift ná hámarki nú að hausti þegar sláturtíð og uppskera íslenska grænmetisins mætast í ljúffengri og nærandi kjötsúpu, sem yljar okkur á sál og líkama.

Næringarríkar súpur og pottrétti með feitu kjöti á beini og haustgrænmeti má finna í matarmenningu margra þjóða, kjötsúpan íslenska á sér nefnilega marga ættingja þegar vel er skoðað. Þessir réttir eiga það allir sameiginlegt að þurfa hægeldun og þolinmæði við eldamennskuna og eiga sinn uppruna hjá alþýðunni í sveitum viðkomandi landa. Hér má t.d. nefna hið norska fårikål, franska réttinn pot au feu og Irish lamb stew.

Leikum okkur með matinn

Haustið á Íslandi er kjörinn tími fyrir kjötsúpur af ýmsu tagi þegar allt grænmetið er í árstíð og ferskt nýslátrað lambakjöt fæst í verslunum. Ég leik mér reglulega með uppskriftir að kjötsúpunni þó að grunnurinn sé yfirleitt nokkurn veginn eins, hér er t.d. tillaga að mikið kryddaðri súpu með asískum hráefnum, og síðan klassísk kjötsúpa með öllu því ferskasta sem má finna. Uppskriftir sem þessar mæli ég með að fólk noti sem innblástur til að prófa ný hráefni og bragð, leikum okkur með matinn. En höldum okkur samt á jörðinni og pössum að fara ekki fram úr okkur.

Kjötsúpa með asískum hráefnum
  • 800 g lambasúpukjöt (má nota annað feitt lambakjöt)
  • 1,6 l vatn
  • 50 ml sojasósa
  • 6–7 dropar fiskisósa
  • 100 g engifer, skrældur
  • 2 stk. eldpipar
  • 6 geirar hvítlaukur
  • 8 stk. nýjar gulrætur
  • 1 stk. laukur, skrældur
  • 30 g hrísgrjón
  • 1 búnt vorlaukur
  • Hnefafylli ferskt kóríander

Þessi kjötsúpa er mjög ólík hinni klassísku kjötsúpu og leitað er bragða í austurlenskri matargerð. Hér er tilvalið fyrir þá djörfu að leika sér enn frekar með bragðið og breyta og bæta eftir smekk og ævintýragirni og t.d. nota ögn af kóresku gouchang mauki með í súpuna. Svo má líka nota aðra bita en súpukjöt, t.d. gúllas, og stytta þannig eldunartímann. Byrjið á að setja kjöt og vatn í pott, stillið á miðlungshita og bíðið eftir suðu.

Á meðan að suðan er að koma upp skerið chili, hvítlauk og engifer í smáa bita. Því næst einnig gulrætur og lauk í smáa bita. Þegar suðan er komin upp, fleytið þá froðuna sem kemur í fyrstu suðu frá. Því næst bætið við sojasósu, fiskisósu, engifer, hvítlauk og chili og leyfið að sjóða í 20 mín. Bætið við gulrótum, hrísgrjónum og lauk og sjóðið í rúmlega 30 mínútur. Smakkið til með sojasósu eða salti. Saxið fínt vorlauk og kóríander og setjið í skálarnar þegar súpan er borin fram.

Kjötsúpa með fersku grænmeti
  • 1 kg súpukjöt
  • 2,5 l vatn
  • 50 g perlubygg
  • 4 stk. nýjar kartöflur
  • 6 stk. gulrætur
  • 1/2 haus hvítkál
  • 1 laukur
  • 1⁄2 blaðlaukur
  • 3 stönglar sellerí
  • 1 hvítlauksrif
  • 2 blöð grænkál
  • Íslenskt sjávarsalt
  • Pipar

Byrjið á að skola lambakjötið vel og nuddið af beinasag sem stundum er fast við, setjið síðan í rúman pott og hellið vatninu yfir, stillið á miðlungshita og bíðið eftir suðu.

Á meðan að suðan er að koma upp er grænmetið skorið, skerið nýjar kartöflur og gulrætur í hæfilega munnbita. Pillið blöðin af selleríinu og saxið í fína strimla og geymið til hliðar í skál. Skerið sellerístönglana svo í grófa bita. Saxið hvítlauk fínt og lauk, blaðlauk, grænkál og toppkál í grófa bita.

Þegar suðan er komin upp og hefur soðið í nokkrar mínútur, fleytið þá froðuna sem kemur á yfirborðið af. Saltið og sjóðið í 20 mínútur og bætið við kartöflum, perlubyggi, hvítlauk, lauk, sellerístönglum og gulrótum. Sjóðið í 30 mín.

Bætið grænkáli, toppkáli og blaðlauk við og sjóðið í 10 mínútur þar til grænmetið er eldað í gegn. Smakkið súpuna til með salti og pipar og stráið í lokin selleríblöðum yfir áður en þið berið súpuna fram.

Kjötsúpa
Matarkrókurinn 2. október 2024

Kjötsúpa

Íslenska kjötsúpan er í grunninn alltaf eins en samt ekki. Allir og allar fjölsk...

Subbu-Jobbi
Matarkrókurinn 18. september 2024

Subbu-Jobbi

Nú þegar skólarnir eru að byrja veitir ekki af því að æfa sig í frægustu samloku...

Piparosta-grísapasta
Matarkrókurinn 21. ágúst 2024

Piparosta-grísapasta

Eftir gular viðvaranir og alla þessa rigningu hættir sér ekki nokkur út að grill...

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja
Matarkrókurinn 29. júlí 2024

Grillréttir, íslenskt nautakjöt og bleikja

Hásumar á Íslandinu fagra, á góðum degi, sólin skín jafnvel, kannski er ekki háv...

Stórkarlasteik
Matarkrókurinn 5. júlí 2024

Stórkarlasteik

Nú fara jafnvel eldavélafælnustu karlpungar landsins að taka sér stöðu við grill...

Reykt svín og remúlaði
Matarkrókurinn 6. júní 2024

Reykt svín og remúlaði

Munurinn á heitreyktum og kaldreyktum mat er heilmikill.

Eitthvað ofan á brauð
Matarkrókurinn 10. maí 2024

Eitthvað ofan á brauð

Ef smjör er ekki eitt af sjö undrum veraldar þá hlýtur það að vera númer átta. N...

Hryggur um páskana
Matarkrókurinn 26. mars 2024

Hryggur um páskana

Það er nánast samofið páskunum að borða lambakjöt af einhverju tagi. Læri, hrygg...