Gusi á Skógasafn
Fjölskylda Guðmundar Jónassonar hefur afhent snjóbílinn Gusa til varðveislu á Skógasafni.
Bíllinn var smíðaður í Bombardier-verksmiðjunum í Kanada og keypti Guðmundur hann árið 1952. Gusi var útbúinn með einangruðu farþegarými, öflugri miðstöð og góðu plássi fyrir tólf farþega. Til þess að fylgjast með staðsetningu ökutækisins í jöklaferðum bætti Guðmundur við búnaði eins og áttavita, hæðarmæli og vegmæli sem dreginn var aftan við bílinn. Jafnframt var sett talstöð í farartækið, en á þeim tíma var notkun þeirra afmörkuð við siglingar.
Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá GJ Travel. Bifreiðin er í mjög góðu standi og getur enn náð 60 kílómetra hraða eins og þegar hún var ný. Að jafnaði var ekið á 25–30 kílómetra hraða í jöklaferðum og var farartækið vinsælt í krefjandi hálendis- og jöklaverkefni. Gusi var til að mynda mikið notaður í leiðöngrum Jöklarannsóknarfélags Íslands.