Héraðsskjalaverðir heiðraðir
Félag héraðsskjalavarða á Íslandi útnefndi Svanhildi Bogadóttur, fyrrverandi borgarskjalavörð og Hrafn Sveinbjarnarson, fráfarandi héraðsskjalavörð í Kópavogi, heiðursfélaga á haustráðstefnu félagsins.
Á ráðstefnunni, sem haldin var í Skálholti, komu saman héraðsskjalaverðir og annað starfsfólk héraðsskjalasafna víðs vegar að af landinu.
Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að Svanhildur hafi verið borgarskjalavörður í 36 ár en starf hennar var lagt niður í kjölfar ákvörðunar Reykjavíkurborgar að loka Borgarskjalasafninu. Hrafn Sveinbjarnarson lætur af sömu ástæðu af starfi héraðsskjalavarðar í Kópavogi á næstunni eftir sautján ára starf. Stefán Bogi Sveinsson, héraðsskjalavörður Austfirðinga, tilkynnti um útnefninguna.