Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Strandveiðitímabili ársins 2021 lauk miðvikudaginn 18. ágúst sl.  Öll fyrirheit um 48 daga til veiða fóru því fyrir ekki neitt. Til þess að svo hefði mátt vera þurfti að bæta við nokkur hundruð tonnum af þorski, einhverju sem engu skiptir í stofnstærðarmælingum né neinu öðru. Allt sem þurfti var pólitískur vilji.
Strandveiðitímabili ársins 2021 lauk miðvikudaginn 18. ágúst sl. Öll fyrirheit um 48 daga til veiða fóru því fyrir ekki neitt. Til þess að svo hefði mátt vera þurfti að bæta við nokkur hundruð tonnum af þorski, einhverju sem engu skiptir í stofnstærðarmælingum né neinu öðru. Allt sem þurfti var pólitískur vilji.
Skoðun 26. ágúst 2021

Leppurinn og smásjáin

Höfundur: Arthur Bogason

Í Bændablaðinu hinn 22. júlí sl. birtist eftir mig grein undir fyrirsögninni „Að nefna snöru í hengds manns húsi“. Greinin fjallaði um þann látbragðsleik sem viðgengst í kringum „besta fiskveiðikerfi í heimi“ – íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið.

Frá því greinin birtist hef ég fengið fjölmörg símtöl og tölvupósta frá einstaklingum sem eru eða voru starfandi í sjávarútveginum, ásamt fólki sem þekkir til en hefur lítið eða ekkert komið þar nálægt.
Ekki einn einasti stjórnmála­maður eða starfsmaður innan stjórn­sýslunnar hefur séð ástæðu til að hafa samband. Hvað þá forystumenn eða fulltrúar annarra samtaka í sjávarútvegi. Þá hafa fjölmiðlar, að undanskildum 200 Mílum Mbl.is, ekki raskað næturró minni.

Þessi staðreynd er birtingarmynd þeirrar aðferðafræði sem notuð hefur verið hingað til þegar brottkast kemst í umræðuna:

  • Skjóta sendiboðann
    Þegja þunnu hljóði
    Loka augunum

Hingað til hefur þetta gefist prýði­lega. Brottkastið hverfur á svip­stundu og leikritið heldur áfram eftir hlé.
Það er vert að rifja upp tvö dæmi af mörgum, annað gamalt en hitt nýlegt.

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda.

Árið 1989 fékki Kristinn Péturs­son, fv. þingmaður og fisk­verkandi, Skáís til að framkvæma skoðanakönnun um þessi mál. Niður­staðan var sláandi: u.þ.b. 53 þúsund tonn færu í hafið árlega, þ.a. 28 þúsund tonn af þorski. Kristinn fékk að sjálfsögðu bágt fyrir. Þáverandi forstjóri Hafrannsókna­stofnunarinnar fullyrti að talan væri um 4 þúsund tonn – án þess að leggja fram nokkur einustu gögn því til stuðnings. Þá fékk Kristinn gusuna yfir sig frá stórútgerðinni um að vafasamar hvatir byggju að baki.

Á árabilinu 2008-2016 komst frystitogarinn Kleifaberg í frétt­irnar þegar sýnd voru í frétta­skýringaþættinum Kveik fjögur myndskeið af brottkasti. Fiskistofa endaði með því að svipta skipið veiðileyfi í ársbyrjun 2019. Það stóð stutt. Sjávarútvegsráðuneytið ógilti sviptinguna. Glósurnar sem „uppljóstrararnir“ fengu voru af sama meiði og Kristinn Pétursson fékk á sínum tíma.

Nú er hins vegar komin upp gjörólík staða. Í þetta skipti heitir sendiboðinn Fiskistofa, opinber stjórnsýslustofnun. Miðað við viðbrögðin sem ég rek hér að framan er aðferðafræðin því orðin tvö síðari stigin, þegja og sjá ekki neitt.
Sjálfur hef ég ekki leynt þeirri skoðun minni að vinnubrögð Fiskistofu séu, svo ekki sé fastara að orði kveðið, á dökkgráu svæði þar sem hún beitir drónum án þess að láta vita fyrirfram að slíkt eftirlit sé í gangi. Á sama tíma verður ekki fram hjá því litið að það myndefni sem stofnunin hefur undir höndum er þess eðlis að komið er að vatnaskilum. Það er einungis tímaspursmál hvenær fleiri en Fiskistofa fara að senda dróna á loft.

Nú finnst sjálfsagt einhverjum liggja beinast við að stjórnvöld setji saman starfshóp þar sem hlutaðeigandi aðilar yrðu dregnir að borðinu og skikkaðir til að ræða málin af hreinskilni og leita allra leiða til að þessi ósómi heyri sögunni til.

Ég er ekki viss um að það skili miklu. Eftir að Skáís gerði könnunina 1989 voru þrjár nefndir skipaðar af þáverandi sjávarútvegsráðherra og niðurstaðan engin. Innantómt blaður um „hert eftirlit“ og „lögreglu­rannsóknir“.

Ég ætla engu að síður að skora á sjávarútvegsráðherra að gera það eitt af sínum síðustu embættisverkum að stofna slíkan starfshóp. Það má lengi lifa í voninni.

Ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að stærstur hluti vandans liggur í fyrirkomulagi fiskveiðanna: veiðirétti úthlutað í kílóum. Lái mönnum hver sem vill að þeir losi sig við kíló sem lítið fæst fyrir eða þeir eiga ekki veiðiheimildir fyrir. Eftir því sem veiðiheimildir eru skornar meira niður eykst vandinn.
Óttinn við þá umræðu á sér þá birtingarmynd að stjórnvöld, jafnt sem hagsmunaaðilar, setja lepp fyrir augað sem ætti að fylgjast með þessu.

Öðru máli gegnir þegar strandveiðar smábáta eiga í hlut. Þar er vakað yfir hverju einasta kílói sem þeir draga úr sjó og hverri einustu mínútu sem þeir eru við veiðar. Þar er smásjánni beitt af vísindalegri nákvæmni.

Strandveiðar

Strandveiðitímabili ársins 2021 lauk miðvikudaginn 18. ágúst sl. Öll fyrirheit um 48 daga til veiða fóru því fyrir ekki neitt. Til þess að svo hefði mátt vera þurfti að bæta við nokkur hundruð tonnum af þorski, einhverju sem engu skiptir í stofnstærðarmælingum né neinu öðru. Allt sem þurfti var pólitískur vilji.

Fyrir stuttu kynnti Hafró niðurstöður úr sínum stofnstærðar­mælingum, m.a. þá niðurstöðu sína að vísitala þorsks hefði lækkað um heil 22% milli ára. Einhverjum kynni að koma til hugar að þessi mikla niðursveifla myndi ekki hvað síst endurspeglast í aflabrögðum smábáta, þeirra sem nota handfæri, veigaminnsta veiðarfærið í atvinnuveiðum Íslendinga.

Því er ekki að heilsa. Veiði strandveiðibáta jókst frá fyrra ári, þótt sú aukning sjáist ekki á öllum svæðum.
En svo ég gerist spámaður í eigin föðurlandi um það sem þessi greinarstúfur fjallar, þá mun tilveran lítið breytast við þessar ábendingar.

Leppurinn verður áfram fyrir öðru auganu og hinu troðið ofan í smásjána.

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...