Héraðsritið Húni
Nokkur vönduð héraðsrit eru gefin út víða um landið, svo sem Breiðfirðingur, Goðasteinn í Rangárþingi, Húnavaka í Austur-Húnavatnssýslu og Húni í Vestur- Húnavatnssýslu og verður það síðastnefnda kynnt hér í stuttu máli.
Ungmennasamband Vestur- Húnvetninga gefur Húna út og er ritið fáanlegt hjá því og í verslun Kaupfélags Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga.
Skemmst er frá að segja að í nýjasta Húna sem kom út á liðnu vori er fjölbreytt efni að vanda. Á blaðsíðunum 256 er einkum þjóðlegur fróðleikur svo og greinargóðar fréttir úr sveitunum og frá Hvammstanga, eins konar annálar. Þá er minnst látinna í héraðinu. Meðal annars efnis má nefna fróðlegt yfirlit um brúarsmíði, skógrækt í Húnaþingi vestra, hrossaræktarbúið á Lækjamóti og búskap fyrir tíma svo sem um göngur á Víðidalstunguheiði haustið 1955.
Birt er athyglisverð fjölskyldusaga hjónanna Karls Friðrikssonar og Guðrúnar Sigurðardóttur á Hvammstanga, sagt frá mislingafaraldri um 1960 og í grein um æviferil Signýjar Hallgrímsdóttur frá Stóru- Borg, móður Ásgeirs Jónssonar frá Gottorp, eru birtar vísur hennar undir ýmsum bragarháttum. Reyndar er í ritinu töluvert af öðrum kveðskap að vanda eins og algengt er í héraðsritum.
Ritnefnd Húna hefur skilað þarna góðu verki. Umbrot, leturgerð og prentvinnsla Húna er með ágætum og er ritið öllum til sóma sem að útgáfu þess standa.