Skógrækt og skemmtun
Þegar líður að hausti breytist yfirbragð skóganna í stórkostlega haustlitasinfóníu og skógarbændur fara að huga að félagsmálum sínum.
Í gegnum árin hafa LSE, Landssamtök skógareigenda, staðið fyrir ár legum fundum þar sem skógar bændur af öllu landinu hafa komið saman og rætt málin og skemmt sér saman. SkógBÍ, búgreinadeild skógarbænda innan Bændasamtaka Íslands, ásamt félögum skógarbænda um allt land, hefur tekið við þessu kefli og haustið 2023 var haldið glæsilegt málþing á Varmalandi í Borgarfirði.
Nú er röðin komin að Félagi skógarbænda á Vestfjörðum sem stendur fyrir málþingi um skógrækt á Dalahóteli á Laugum í Sælingsdal þann 12. október í haust þar sem félagsmál skógarbænda verða í brennidepli. Ásamt Vestfirðingum koma SkógBÍ og félög skógarbænda um allt land að þessu málþingi og þar verður fjallað um ýmis málefni tengd skógrækt í fortíð, nútíð og framtíð ásamt félagsmálum skógarbænda.
Yfirskrift þingsins er Skógrækt í dag, hvað ber framtíðin í skauti sér? Margir áhugaverðir fyrirlesarar verða á málþinginu og þangað koma góðir gestir til að taka þátt í umræðum okkar skógarbænda um okkar málefni. Við fræðumst um hvernig hefur gengið á þeim 25 árum sem liðin eru síðan lög um landshlutaverkefni í skógrækt voru sett og skógrækt á bújörðum bænda hófst um allt land. Við sjáum dæmi um þau verkefni sem unnin hafa verið og hverju hefur verið áorkað í skógrækt á bújörðum. Einnig heyrum við sögur úr skógunum og skógarstarfinu og reynum að skyggnast inn í framtíðina um ræktun og notkun skóganna okkar. Á málþinginu verður einnig rætt um félagsmál skógarbænda, hverjir eru málsvarar okkar skógarbænda gagnvart ríki og stofnunum þess og hvaða þjónustu skógarbændur geta fengið hjá þeim aðilum. Jafnframt veltum við upp spurningum um hvernig hagsmunir skógarbænda eru best tryggðir félagslega séð og hvernig við getum eflt samstöðu og samtakamátt skógarbænda um allt land.
Að venju verður skógarganga eftir málþingið og þar gefst okkur tækifæri til að kynnast skógrækt Sigurbjörns Einarssonar í næsta nágrenni Lauga. Skógarreitur Sigurbjarnar er áhugaverður staður og þar hefur hann unnið mikið starf með ýmiss konar tilraunum og prófunum sem gaman verður að heyra um og sjá árangurinn af.
Eftir skógargönguna er svo komið að árshátíð skógarbænda þar sem tækifæri gefst til að hitta aðra skógarbændur, rifja upp gömul kynni og mynda ný tengsl, ræða málin, hlæja saman og njóta góðra veitinga. Boðið verður upp á góðan mat, skemmtiatriði úr héraði og síðast en ekki síst notalega samverustund skógarbænda þar sem gleðin verður í fyrirrúmi.