Vilja Íslendingar vera upp á aðra komnir í matvælaframleiðslu?
Landbúnaður hefur fylgt íslensku þjóðinni í örófi alda, Ísland er eyríki í Norður-Atlantshafi og er um 103.000 km2 að stærð, næststærsta eyja Evrópu á eftir Bretlandi og sú átjánda stærsta í heimi. Á Íslandi búa tæp 400.000 manns.
Nú blasir við að ófriður hefur brotist út í Evrópu sem sér ekki fyrir endann á. Ef til frekari átaka kemur getur það skeð að viðskiptahöft og flutningar hingað til lands geta raskast, einnig ber að nefna það að í gegnum stríðstíma hafa þjóðir flutt minna út af vörum til að tryggja birgðir sinnar þjóðar á slíkum tímum.
Undanfarin ár hefur íslenskur landbúnaður átt undir högg að sækja og er í raun sótt að honum úr mörgum áttum. Meðalaldur íslenskra bænda er um 60 ár og nýliðun í bændastéttinni lítil, þungt rekstrarumhverfi og aukinn innflutningur á kjöti erlendis frá gerir bændum mjög erfitt fyrir.
Tölurnar tala sínu máli
Árið 2022 var heildarframleiðsla á dilkakjöti um 7.408 tonn. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í framleiðslu á þessu ári 2023 og að framleiðslan fari niður í 7.205 tonn.
Árið 2017 var heildarframleiðsla á dilkakjöti um 9.206 tonn. Frá þeim tíma hefur framleiðsla dregist saman um nær 1.986 tonn, eða 22%. Yfir sama tímabil hefur sauðfé fækkað um 108.000 vetrarfóðraðar ær, eða 23%. Á sama tíma hefur innflutningur á lambakjöti færst í mikinn vöxt hérlendis. Fjögur fyrirtæki skiptu með sér tollkvóta fyrir innflutning á 345.000 kg af kinda eða geitakjöti á tímabilinu 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Meðalverð tollkvótans var ein króna. Stjörnugrís ehf. fékk úthlutað 280.929 kg, Ekran ehf. fékk 40.000 kg, Innnes ehf. 20.000 kg og Samkaup 4.071 kg.
Á tímabilinu frá júlí 2022 til og með febrúar 2023 hafa 14.606 kg af kinda eða geitakjöti verið flutt hingað til lands, langmest, eða 14.209 kg, frá Spáni. Frá árinu 2016 hefur framleiðsla á dilkakjöti á Íslandi dregist saman um 20%.
Brostið fæðuöryggi
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, hefur bent á brostið fæðuöryggi þjóðarinnar á stríðstímum. Hann talar um að það séu til matvæli sem myndu duga í níu daga komi eitthvert alvarlegt ástand upp í landinu.
Grafalvarleg staða blasir við í þessum efnum, við þurfum með miklu sterkari hætti að stuðla að eflingu íslensks landbúnaðar. Þingmenn þessarar þjóðar þurfa að setja málefni sem snerta fæðuöryggi og hagsæld bænda á dagskrá og standa vörð um sérstöðu landbúnaðar hérlendis, þannig má tryggja dreifða búsetu um land allt og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar.