Orkuskipti í Vallanesi
Í Vallanesi á Fljótsdalshéraði hefur í rúma þrjá áratugi verið stunduð lífræn grænmetisrækt af ýmsu tagi.
Bændur í Vallanesi, þau Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir, eru frumkvöðlar á marga vísu og bjóða upp á heilnæmar vörur sem fáanlegar eru í búðum landsmanna víðast hvar. Eru vöruflokkar þeirra orðnir fjölmargir, allt frá korni til krukkukrása yfir til olíu og auðvitað hefðbundins grænmetis. Vörur frá Vallanesi hafa verið seldar undir vörumerkinu „Móðir jörð“ við góðan orðstír.
Á jörðinni hafa skjólbelti verið ræktuð frá 1983 og í dag eru þau samanlagt níu kílómetrar að lengd, staðsett vítt og breitt um ræktunarland Vallaness. Auk skjólbelta hafa þau ræktað skóg frá 1989 og allt í kring má núorðið sjá vöxtulegan skóg gægjast til himins.
Skjólbeltunum að þakka
Eymundur hefur það á orði að með tilkomu skjólbeltanna hafi veðurfar í Vallanesi breyst svo mikið að það væru engu líkara en að landið hafi færst nær Evrópu. Það er skjólbeltunum fyrst og fremst að þakka að þau geti ræktað svo ríkulega á jörðinni. Ávinningur skógarins í formi hita er meiri en skjóláhrifin ein og sér.
Trén á jörðinni hafa nú þegar nýst til húsbyggingar á jörðinni þegar þau byggðu hið fræga Asparhús, sem er lítið veitingahús fyrir gesti og gangandi. Auk þess mun húsakostur á jörðinni nú vera kyntur með viði úr skóginum, ýmist kurli, sem kurlað er á staðnum, eða viðarperlum frá Tandraberg, sem er einnig söluaðili að viðarbrennsluofninum. Til framtíðar er þetta fjárhagslega hagkvæmara en að kynda húsakostinn með rafmagni eins og nú er gert. Það leiðir til þess að gróðurhús verða nú einnig kynt sem er kærkomið fyrir frekari ræktun á jörðinni.
Viðarkynding er sjálfbær og álitlegur orkukostur fyrir bújarðir. Tré vaxa og binda kolefni úr andrúmsloftinu í viði með því að nota vatn og orku sólarinnar.
Umhverfislegur ávinningur
Umhverfislegur ávinningur er af mörgum toga. Í tilfelli Vallaness er orkan „ræktuð“ á búinu. Viðurinn úr skóginum í Vallanesi er fyrst og fremst nýttur til gagnviðar, þegar það er hægt og er því meginkolefnisbinding trjánna bundin lengur í formi timburs. Afsag og lim er loks nýtt til kyndingar. Nýting viðar er algengasta orkunýtingin í flest öllum löndum veraldar. Þó á Íslandi sé gnægð af orku að finna, bæði í jarðvarma og fallvatna, er ekkert sem segir að við getum ekki nýtt okkur sólarorkuna með þessum hætti einnig, sér í lagi þar sem öðrum möguleikum verður ekki við komið.
Félagslegur ávinningur er heilmikill. Að koma upp skógi og hirða um, svo sem grisja og snyrta, kallar á heilmikla vinnu sem skapar störf. Afurðir skógarins skapa svo enn fleiri störf. Skógurinn hefur aðdráttarafl og nærvera við hann gefur lífskraft. Það er ekki að furða að fólk sæki í göngustígana um skóginn. Fjárhagslegur ávinningur felst í minnkandi kaupum á raforku og ekki síður öruggu orkuframboði þegar raforku nýtur ekki við, t.d. í rafmagnleysi. Í dreifðum byggðum eru meiri líkur á að rafmagnsleysi vari lengur en í þéttbýlum landsins. Langvarandi skortur á rafmagni getur valdið skemmdum á framleiðslu landbúnaðarvara á borð við mjólk og ylræktuðu grænmeti.
Þá getur varmi viðarofns verið góður. Hægt að er nýta varma til rafmagnsframleiðslu, þó svo að það sé ekki ætlunin í Vallanesi. Í stað þess að nýta orku sem fengin er með inngripum í náttúruna á borð við stíflugerð, er hér notast við aukaafurð af timburframleiðslu.
Kraftmikið starf í Vallanesi á margt undir skóginum komið og er starfsemin þar því sem næst sjálfbær, þökk sé honum. Skógurinn gefur og gefur.