31% fækkun gjaldþrota
Skráð gjaldþrot í mars 2016 voru 120. Gjaldþrotum í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum fækkaði um 31%.
Gjaldþrotum fyrirtækja síðustu 12 mánuði, frá apríl 2015 til mars 2016, hefur fækkað um 15% í samanburði við 12 mánuði þar á undan.
Alls voru 673 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, borið saman við 792 á fyrra tímabili. Á heimasíðu Hagstofu Íslands segir að hlutfallslega hafi gjaldþrotum fækkað mest í fasteignaviðskiptum, um 35%. Einnig má nefna fækkun gjaldþrota í rekstri gististaða og veitingarekstri um 32%. Gjaldþrotum fækkaði frá fyrri 12 mánuðum í öllum helstu atvinnugreinabálkum nema í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar sem þeim fjölgaði um 6%.
Nýskráningar einkahlutafélaga í mars 2016 voru 261. Síðustu 12 mánuði, frá apríl 2015 til mars 2016, hefur nýskráningum einkahlutafélaga fjölgað um 14% í samanburði við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 2.465 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, borið saman við 2.161 á fyrri 12 mánuðum.
Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim fjölgar úr 230 í 394, eða um 71% á síðustu 12 mánuðum. Meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna leigustarfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu þar sem nýskráningum fjölgaði úr 157 í 204 (30%) og rekstur gististaða og veitingarekstur þar sem fjölgunin var úr 142 í 172 nýskráningar (21%). Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga var í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á ökutækjum, eða um 7% frá fyrra tímabili.