Ætlunin er að vetnisvæða þungaflutninga á Íslandi
Þjóðir heims keppast nú við að taka þátt í þeirri umbreytingu sem felst í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og taka upp nýtingu á orkugjöfum sem skilja ekki eftir sig kolefnisútblástur. Vetnisvæðing mun spila stóran þátt í þessum markmiðum og þá skiptir uppbygging innviða höfuðmáli, líka á Íslandi. Þar hyggst íslenska þróunarfélagið VETNIS ekki láta sitt eftir liggja.
Á dögunum var gengið frá samkomulagi Íslenska þróunarfélagsins VETNIS og þýska sjóðstýringarfyrirtækisins Prime Capital um að vinna saman að þróun og uppbyggingu á því sem nefnt hefur verið „Vetniskeðjan“.
Í samstarfi við fjölmörg öflug fyrirtæki í vörudreifingu
Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri VETNIS, segir að án innviðauppbyggingar varðandi framleiðslu og dreifingu á vetni sé tómt mál að tala um vetnisvæðingu á Íslandi. Þá sé verkefnið það stórt að margir þurfi að koma að því.
„Við stefnum að því að minnka losun frá samgöngum á Íslandi með þessu eina verkefni um meira en eitt prósent. Við höfum verið í samstarfi um þetta við Samskip, Póstinn, Mjólkursamsöluna, Kynnisferðir, Mannvit, Byko, KPMG, Fóðurblönduna, BM Vallá, Reykjavík Excursions, Kvikna, Strætó, Iasavia, Íslandsbanka og nú síðast Prime Capital.
Þannig erum við í raun að ná saman fyrirtækjum sem öll hafa það að markmiði að minnka losun í þungaflutningum. Með því að búa til fyrirtæki sem leggur fram tæknilausnina er í raun verið að dreifa tækniáhættunni frá hverju einstöku fyrirtæki sem að þessu kemur.“
Langferðabílar í flutningum verði vetnisknúnir
„Lausnin felst m.a. í því að bjóða upp á vetnisknúin farartæki sem komast um 600 kílómetra á einni tankfyllingu. Markmiðið er að kostnaðurinn verði sem næst rekstrarkostnaði á dísilknúnum bílum.“
VETNIS telur að lausnin felist í því að framleiða „grænt“ vetni þar sem best hentar að nýta raforkuna sem í boði er og í sem minnstri samkeppni við aðra orkunýtingu. Því gangi þeirra hugmynd ekki út á að vera með litlar staðbundnar stöðvar til vetnisframleiðslu þar sem slíkt yrði alltaf kostnaðarsamara þegar upp er staðið. Þess í stað sér fyrirtækið fyrir sér uppbyggingu á framleiðslu í stórum stíl, dreifingu og uppbyggingu á dælustöðvum vetnis sem henti mikilli notkun stórra fólks- og vöruflutningabíla.
Óhagkvæmt að veðja á rafgeyma í þungaflutningum
Auðun segir að Ísland hafi nokkra sérstöðu í þessum málum, ekki bara hvað varðar framleiðslu á raforku og vetni úr endurnýjanlegum orkulindum. Þungaflutningar með bílum séu hlutfallslega mjög miklir á Íslandi í samanburði við flest okkar viðmiðunarlönd. Í Evrópu eru kostirnir fleiri í þungaflutningum, til dæmis með járnbrautalestum
og skipum.
Þungaflutningar um langan veg í köldu loftslagi eins og á Íslandi, þar sem auk þess þarf að fara um fjallvegi, gangi illa upp á rafknúnum bílum sem geyma alla sína orku í rafhlöðum. Því telji VETNIS lausnina felast í rafbílum þar sem raforka er framleidd um borð úr vetni
með efnarafölum.
Stóra tengingu þarf til að hlaða rafhlöðu í flutningabíl
Til að rökstyðja mál sitt nefnir Auðun að til að keyra flutningabíl í 3 klukkutíma sem knúinn er af raforku frá rafhlöðu þurfi nálægt hálfri megavattstund (500 kwst) af rafmagni. Til að geta hlaðið slíkri orku á rafgeymi á einni klukkustund, þá þurfi aflið að nema hálfu megavatti. Auk þess séu rafhlöður þungar og stór hluti af orku flutningabíla færi í að flytja rafhlöðurnar á milli staða sem minnkar flutningsgetuna verulega. Þetta þekkir fólk m.a. í rafknúnum sendibílum í dag þar sem flutningsgetan er vart nema liðlega þriðjungur af flutningsgetu dísilknúins sendibíls. Dýrari bílar með minni flutningsgetu hljóta auk þess að kalla á hækkun flutningsgjalda.
Ef miðað er við algengar aðstæður í flutningageiranum á Íslandi, þá geta 10 trukkar eða fleiri þurft að hlaða á sama tíma. Það þýðir tengingu á hleðslustað upp á 5 megavött. Það er stærri tenging en Smáralindin í Reykjavík er með og líka stærri en Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki er með. Þá má einnig nefna til samanburðar að varaaflsstöð í Bolungarvík sem sinna á öllum norðanverðum Vestfjörðum er með sex 1,8 megavatta (MW) dísilaflvélar sem samtals geta framleitt 11 MW af raforku.
Í stað þessa að setja upp öflugt raforkudreifikerfi fyrir trukkasamgöngur, þá sér VETNIS fyrir sér að á stoppistöðvum þeirra verði komið fyrir vetnistönkum og áfyllingarbúnaði sem spari um leið mikinn tíma hjá flutningabílstjórum við áfyllingu á orku og auki flutningsgetu umtalsvert miðað við bíla búna rafhlöðum.
Samhæft hringrásarkerfi
Vetniskeðjan er því sagt samhæft hringrásarkerfi þar sem grænt vetni leikur lykilhlutverk. Kerfið samanstendur af innviðum til framleiðslu og dreifingar á grænu vetni, stórum farartækjum svo sem vöruflutningabifreiðum, rútum og strætisvögnum og upplýsingakerfum sem stýra framleiðslu á vetni í takt við þörf í rauntíma.
Hafin er uppsetning á vetnisáfyllingarstöðvum í að minnsta kosti 33 löndum samkvæmt vefsíðu Petrol Plaza. Hraðast miðar uppsetningu slíkra stöðva í Kína, en Japanir eru þó komnir lengst, með um 150 áfyllingarstöðvar. Mynd / Petrol Plaza
Í samstarf með öflugum og reyndum fjármögnunarsjóði
„Frá 2019 hefur VETNIS unnið að þróun Vetniskeðjunnar í samstarfi við leiðandi tæknifyrirtæki á heimsvísu og innlenda samstarfsaðila,“ segir Auðun Freyr.
„Við munum njóta dyggrar aðstoðar Prime Capital, sem mun fjármagna frekari þróun verkefnisins og framkvæmd þess allt til enda. Það er mikill fengur í samstarfinu við Prime Capital. Sérfræðingar fyrirtækisins búa yfir áralangri reynslu af uppbyggingu grænna innviðaverkefna á alþjóðavísu.
Við miðum að því að gera verkefnið fjárfestingarhæft á árinu 2022 og hefja rekstur Vetniskeðjunnar á árinu 2024. Uppsetning Vetniskeðjunnar mun minnka umtalsvert kolefnislosun frá samgöngum á Íslandi.“
Prime Capital hefur frá 2012 fjárfest í tæplega þrjátíu verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku og mun í þessu tilfelli fjárfesta í gegnum Prime Green Energy Infrastructure Fund sem er sérhæfður sjóður um græna innviðauppbyggingu.
„Við munum ekki ná hlutleysi í kolefnislosun hagkerfa nema með nýrri tækni og frumlegum viðskiptalíkönum. Ísland, þar sem saman fer gnótt grænna orkuauðlinda og landfræðileg sérstaða, er tilvalinn vettvangur framtaks, framfara og uppbyggingar á þessu sviði,“ segir dr. Mathias Bimberg, sjóðsstjóri hjá Prime Capital.