Alvarlegt afbrigði fuglaflensu greindist á vetrarstöðvum íslenskra farfugla
Alvarlegt afbrigði fuglaflensu greindist á vetrarstöðvum íslenskra farfugla. Fuglarnir hafa nú flestir yfirgefið vetrarstöðvarnar og eru komnir til varpstöðva sinna á Íslandi.
Á heimasíðu Matvælastofnunar er minnt á að enn er í gildi aukið viðbúnaðarstig vegna hættu á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu geti borist frá villtum fuglum í alifugla og aðra fugla í haldi. Mast segir að greiningum á fuglaflensu í Evrópu hafi fækkað undanfarið en enn eru taldar nokkrar líkur á að það berist með farfuglum hingað til lands.
Hækkað viðbúnaðarstig
Hinn 23. mars síðastliðinn var viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu aukið með auglýsingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis nr. 241/2017, sem kveður á um auknar smitvarnir.
Tilfellum fækkað í Evrópu
Undanfarið hefur greiningum á alvarlegu afbrigði fuglaflensu af sermisgerðinni H5N8 fækkað á meginlandi Evrópu og á Bretlandseyjum. Fækkunin er að hluta skýrð með því að í Evrópu er komið vor og í hærra hitastigi minnkar fjöldi virkra fuglaflensuveira hraðar en þegar kalt er.
Alvarlegt afbrigði fuglaflensu greindist á vetrarstöðvum íslensku farfuglanna, sem þeir hafa nú flestir yfirgefið og eru komnir til landsins.
Starfshópur, sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnarlæknis, telur að enn sé ekki útilokað að fuglarnir hafi borið veiruna til landsins.