Áburðarsala í fullum gangi þrátt fyrir hátt verð
Norskir bændur eru byrjaðir að versla inn tilbúinn áburð fyrir næsta ár. Salan byrjaði þegar í júní og segja fulltrúar Yara söluna vera svipaða og undanfarin ár. Bondabladet greinir frá.
Anders Trømborg, markaðsstjóri hjá Yara, gerir ráð fyrir að salan verði 30-40 þúsund tonnum undir meðalárinu.
Þróunin virðist stefna í þá átt að bændur kaupi frekar áburð með háu köfnunarefnisinnihaldi og leggi meira upp úr betri nýtingu húsdýraáburðar. Samkvæmt Trømborg eru það sérstaklega kúabændur sem hafa breytt sínum aðferðum til að þurfa ekki að reiða sig eins mikið á tilbúinn áburð.
Í kringum síðustu mánaðamót er líklegt að 35-40 prósent af sölunni á þrígildum áburði og 25-30 prósent af sölunni á tvígildum áburði hafi þegar verið staðfest, og því má segja að sölutímabilið sé í fullum gangi.
Þrátt fyrir miklar verðhækkanir á áburðarefnum og brostnar aðfangakeðjur gerir Yara ekki ráð fyrir að lenda í vandræðum með afhendingu á norska markaðinn næsta vor. Trømborg viðurkennir þó að hátt gasverð í Evrópu og skert aðgengi að flutningaskipum hafi flækt málin.