Bændablað úr frjóum jarðvegi
Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins árið 1995 og gegndi því starfi í hartnær tólf ár. Hann mótaði grunn blaðsins og lagði línurnar.
Fyrsta tölublað fyrsta árgangs Bændablaðsins, í útgáfu Sameinaðra bændasamtaka (Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda) og síðar Bændasamtaka Íslands, kom út þriðjudaginn 14. mars 1995. Var það 12 síður og upplagið 7.000 blöð. Blaðið kom frá upphafi út hálfsmánaðarlega en mánaðarútgáfuhlé var að jafnaði á hásumri.
Fyrsti ritstjóri Bændablaðsins var Áskell Þórisson. Auk Áskels starfaði auglýsingastjórinn Eiríkur Helgason á blaðinu frá byrjun. Það var ekki fyrr en í ársbyrjun 1998 að blaðinu bættist liðsauki, en þá má sjá nafn Jórunnar Svavarsdóttur blaðamanns fram á sumar en haustið 1998 er Hallgrímur Indriðason, nú fréttamaður á RÚV, orðinn blaðamaður í stað Jórunnar.
Blaðið var framan af prentað í Ísafoldarprentsmiðju, um tíma í Dagsprenti á Akureyri en svo í Landsprenti, fram á þennan dag.

Lendingin var fríblað
Akureyringurinn Áskell hóf feril sinn í blaðamennsku á Tímanum en fór síðar til Dags á Akureyri sem blaðamaður og varð síðar ritstjóri sama blaðs. Hann var þó starfsmaður Samkeppnisstofnunar syðra þegar haft var samband við hann vestan af Högum og hann spurður hvort hann vildi búa til blað fyrir bændur. „Það er sjaldgæft að fá tækifæri til að stofna blað og ég gleypti öngulinn og beituna og sagði bara já,“ segir hann. Áskell kveðst hafa flutt þau vinnubrögð sem hann þekkti af Degi með sér inn á Bændablaðið. „Bændur voru búnir að velta fyrir sér útliti og efnistökum, og ég síðan með þeim. Einhver hafði hugmyndir um að rukka inn og hafa þetta áskriftarblað en lendingin var fríblað,“ segir hann og bætir við að póstþjónustan hafi í raun hjálpað við að koma blaðinu á laggirnar með hófstilltum reikningum fyrir dreifingu um land allt. Blaðið hafi verið sett í flokk með ritum trúarlegs eðlis og dreift þannig.
Eiríkur Helgason, þá starfsmaður Búnaðarfélagsins, var fenginn í auglýsingamálin. „Hann þekkti þessa vélakalla alla meira og minna, átti auðvelt með að umgangast þá og talaði þeirra tungumál, þannig að það gekk ljómandi vel,“ útskýrir Áskell. „Við vorum sem sagt tveir til að byrja með. Þetta gat verið ansi töff; að skrifa mest allt blaðið, teikna það upp og brjóta um. Ég bjó líka til slatta af auglýsingunum því að við fengum margar auglýsingar út á að vélasalarnir þyrftu ekki að fara til dýrra auglýsingastofa. Þeir treystu á að ég gæti reddað frambærilegum auglýsingum. Ég gerði líka mikið af því að fá gott fólk til að skrifa í blaðið. Erna Bjarnadóttir, nú hagfræðingur hjá MS, starfaði þá hjá Bændasamtökunum og hún var alveg ótrúlega dugleg að leggja blaðinu til efni. Auðvitað hjálpuðu fleiri til, það var ekki eins og ég skrifaði hverja einustu línu,“ segir hann sposkur og bætir við að skemmtilegt sé að blaðið er enn nánast eins í útliti og þegar hann hvarf frá því á sínum tíma.
Ýmislegt útgáfubras
Aðspurður hvernig bændur hafi brugðist við þegar hann innti þá tíðinda segir Áskell viðbrögðin ævinlega hafa verið mjög góð. „Menn áttuðu sig mjög fljótt á að Bændasamtökin þurftu á blaði að halda. Segja má að allir hafi tekið mér ótrúlega vel. Einnig skrifað fyrir mig ef ég bað um greinar, og þá í þeirri lengd sem ég óskaði eftir. Fólk vann mjög mikið saman. Maður sat þarna eins og kónguló í miðjum vefnum og ég nýtti mér að þekkja marga úr þessum bransa og vera þannig að menn vildu síður fá annað símtal frá mér,“ útskýrir hann og glottir út í annað.
Allur gangur var svo á hvort greinarnar bárust eftir leiðum internetsins, sem þá var fremur nýtt af nálinni, eða hreinlega handskrifaðar á blaði.
„Við skulum gá að því að á þessum fyrstu árum blaðsins var tæknin langt frá því að vera sú sem við þekkjum í dag,“ bætir hann við.
Það gat verið umhendis að koma blaðinu í prentun í þá tíð. Áskell lýsir því hvernig hann, eftir að umbroti var lokið, vistaði allt blaðið á cd-diska og ók þeim í prentsmiðju. Nota þurfti á bilinu 30–40 diska undir efni blaðsins. Ef villa reyndist vera í vistun efnisins þurfti að haska sér upp á blað, vista allt niður aftur og fara að því búnu enn í prentsmiðju með diskana. „Það var leiðindavinna,“ segir Áskell. „Ég man að fyrstu ár blaðsins var ég líka með framköllun, þ.e.a.s. myrkrakompu, og framkallaði þar og stækkaði svarthvítar myndir fyrir blaðið.“
Hann hafði fyrir sið að fara með nokkur eintök á útvarpsstöðvarnar eldsnemma morguns á útgáfudegi og láta morgunfréttamenn fá eintök. Jafnvel ráðleggja um hvað væri viskulegt að taka upp úr blaðinu í fréttatímum hljóðvakanna.
Bændablaðið var í áskrift að fundargerðum allra hrepps- og sveitarstjórna og reyndist það dýrmæt uppspretta fyrir fregnir af markverðum tíðindum um allt land. Lengsta skottúrinn til efnisöflunar segist Áskell hafa farið austur á land til að taka myndir á árshátíð hjá bændum. Hann ók svo heim næsta dag. „Þetta var náttúrlega rugl,“ segir hann og hlær við.
Dagsprent á Akureyri sá um prentun Bændablaðsins um nokkurt skeið og þar á meðal var tölublað í aldreifingu. „Dagsprent prentaði og ég held að vélin hjá þeim hafi snúist hátt í sólarhring við þetta. Rokkurinn hjá þeim var raunar ekki mjög hraðvirkur,“ rifjar hann upp kíminn.

Blaðið þjappaði bændum saman
Áskell vill lítið tjá sig um málefni landbúnaðarins á þessum upphafsárum, hvað hafi helst verið í brennipunkti, heldur snýr spurningunni á haus og spyr hvort menn hafi haft gagn af því að Bændablaðið varð til. „Svarið er já, vegna þess að ég held að Bændablaðið hafi þjappað fólki saman. Þetta var, og er enn, blað bænda og það held ég að sé dýrmætt. Við víkkuðum það svolítið út og sögðum blaðið þjóna hinum dreifðari byggðum, vegna þess að víða er það eitt og hið sama: dreifðar byggðir og bændur. Þannig tókum við fljótt þá stefnu að segja frá því sem var að gerast í smærri samfélögum, og ekki bara því sem gerðist inni í fjósi, fjárhúsi eða hænsnahúsinu. Svo margt skipti máli, eins og til dæmis vegamálin í sveitunum og heilbrigðismálin, þannig að Bændablaðið varð fljótt, að ég tel, málsvari dreifðari byggða,“ segir hann.
Sjaldan lenti hann í kröppum dansi vegna efnistaka á ritstjórnarferlinum. Hann rifjar þó upp að forsíðufyrirsögn hafi pirrað einn þáverandi flokksformanna verulega og viðkomandi sést æpa að framkvæmdastjóra Bændasamtakanna á bílastæði úti í bæ vegna hennar. „Ég býst við að fyrirsögnin hafi verið dálítið glannaleg, já,“ segir Áskell og krimtir í honum. „Blöð geta haft áhrif. Ef þau eru skrifuð og unnin af fólki sem hefur metnað fyrir því sem það er að gera, og vill gera vel, þá síast það út í gegnum síðurnar á blaðinu. Þú finnur fljótt hvort viðtal er skrifað af tilfinningu og áhuga á því sem sagt er.“
Ljósmyndaáhuginn tók yfir
Áskell lét gott heita á ritstjóravaktinni eftir tæp tólf ár í starfi. Hann flutti sig þá yfir til Landbúnaðarháskóla Íslands í starf útgáfu- og kynningarstjóra og nokkrum árum síðar í sambærilegt starf hjá Landgræðslunni. Hjá Landbúnaðarháskólanum tók hann m.a. upp þá nýbreytni að efna á vorin til Vísindadaga unga fólksins, fyrir framhaldsskólanema að kynnast heimi raunvísinda. Var þá skoðaður gróður og jarðsaga, jarðvegur rannsakaður og greindur, sömuleiðis skógar. Jafnframt voru matvælarannsóknir kynntar. Aðspurður um minnisstæð verk hjá Landgræðslunni minnist Áskell þegar hann gerði 30 klukkustundarlanga kynningarþætti um landgræðslumál og voru þeir sýndir hvað eftir annað á ÍNN-sjónvarpsstöðinni þar sem þeir nutu vinsælda hjá almenningi. Annaðist hann sjálfur alla framleiðslu þáttanna. Hann segir kynningu og fræðslu af þessu tagi hafa ótrúlega mikil áhrif.
Áskell býr nú í Hvalfjarðarsveit, unir hag sínum vel og hefur beitt sér í sveitarstjórnarmálum. Hann er annálaður ljósmyndari og hafa smásæjar (macro) náttúruljósmyndir hans vakið sérstaka athygli. Hann segist hafa einhent sér í ljósmyndun þegar vinnuálag rénaði. Myndefnið í náttúrunni sé óþrjótandi. Dóttir hans, Laufey Dóra, hefur látið prenta hinar smásæju ljósmyndir föður síns á vistvænt klæðisefni frá Bretlandi og eru saumaðir úr því sérsniðnir kjólar undir merkinu Laufey. Verkefnið naut frumkvöðlastyrks frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og kjólarnir hafa verið sérsniðnir og saumaðir af fagfólki á Akranesi.
Stétt sem er vön að bjarga sér
„Bændablaðsárin voru skemmtileg. Ég var ánægður ef hægt var að ná inn efni sem ég vissi að bændur úr sveitum landsins hefðu gaman af, og gætu jafnvel grætt pínulítið á að lesa. Þetta er stétt sem er vön að bjarga sér og ef maður gat kynnt til sögunnar einhverjar nýjungar, vinnubrögð eða eitthvað sem gat komið bændum til góða, þá var ég sáttur.
Ég held að Bændablaðið muni halda áfram að vera mikilvægt fyrir bændastéttina og þá landsmenn sem vilja fylgjast með landbúnaði og strjálbýli. Framleiðsla bænda í framtíðinni mun skipta okkur öll alveg gríðarlegu máli og það verða slíkar breytingar á henni á næstu árum og áratugum að það hálfa væri nóg. Við eigum, svo dæmi sé nefnt, að taka sunnlenska sanda og breyta þeim í akra sem hægt verður að rækta korn á í framtíðinni. Það er hægt, skref fyrir skref,“ segir Áskell að endingu og óskar Bændablaðinu velfarnaðar.