Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Bændum fækkar, nýliðun er lítil og ríflega hálfur hektari ræktarlands glatast á hverri mínútu
Fréttir 4. febrúar 2015

Bændum fækkar, nýliðun er lítil og ríflega hálfur hektari ræktarlands glatast á hverri mínútu

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Í nýrri rannsókn á stöðu bænda í Bandaríkjunum sem kynnt var í desember,  kemur fram að þessi stétt er að eldast mjög hratt. Einnig er gengið hratt á landbúnaðarland til annarra nota og glatast þannig um 0,66 hektarar á mínútu. 

Bændur, og þá einkum bændur í minni fjölskyldubúum, virðast hægt og bítandi vera að deyja út verði ekkert að gert. Það getur haft alvarleg áhrif á fæðuöryggi og getu landsins til að framleiða mat.   

Bændum hefur fækkað um 63% á einni öld

Landbúnaður í Bandaríkjunum hefur gengið í gegnum dramatískar umbreytingar á síðustu hundrað árum ekki síður en á Íslandi. Rannsóknin sem unnin var fyrir Rangeland af Henry B. Glick, Charles Bettigole, Devin Routh, Lindsi Seegmiller, Catherine Kuhn, Ambika Khadka og Chadwick D. Oliver. Rannsóknin tekur bæði til stöðu hefðbundins landbúnaðar sem og skógræktar og þeirra sem hafa atvinnu af landnýtingu og stjórnun. Þar kemur fram að bændum í Bandaríkjunum hefur fækkað um 63% frá árinu 1900. Á sama tíma hefur stærð búanna aukist um 67%. Þrátt fyrir aukna stærð búanna hafi afkoma bændanna ekki batnað og nú berjist þeir flestir í bökkum við að halda sínu efnahagslega sjálfstæði. 

Stórfyrirtæki ásælast bújarðir og störfum fækkar í landbúnaði

Er þetta gríðarleg breyting, því fyrir rúmri öld var landbúnaður yfirgnæfandi atvinnuveitandi í Bandaríkjunum. Í dag hafa verslunarkeðjur og stórfyrirtæki verið að yfirtaka fjölskyldubúin og í landbúnaði starfar nú vart nema 2% vinnufærra Bandaríkjamanna. Frá 1930 hefur hlutfall bænda sem hafa haft meira en helming tekna sinna af starfsemi utan búanna meira en þrefaldast. Virðist þetta eiga sér töluverða samsvörun við það sem verið hefur að gerast á Íslandi, ekki síst hvað varðar sauðfjárbændur.

Stækkun búanna kemur í veg fyrir nýliðun í greininni

Stækkun búanna þýðir um leið að erfiðara verður fyrir nýliða að koma inn í greinina. Í gegnum tíðina hefur því sífellt færra ungt fólk sóst eftir því að gerast bændur. Er vitnað í úttekt bandaríska landbúnaðarráðuneytisins sem sýnir að vel yfir helmingur bænda á landsvísu í dag er yfir 55 ára að aldri. Þetta hafi kannski ekki bein áhrif á reksturinn sem slíkan, heldur hafi þetta gríðarleg félagsleg áhrif á greinina til lengri tíma litið. Það eigi sérstaklega við um rótgrónu fjölskyldubúin og framtíð þeirra.

Áhugaverðar niðurstöður í landbúnaðarríkinu Wyoming

Gerð var sérstök úttekt á þróun landbúnaðar í ríkinu Wyoming sem er mikið landbúnaðarríki þar sem slétturnar miklu mæta Klettafjöllunum. Hefur landbúnaður alla tíð skipt miklu máli fyrir lifnaðarhætti og menningu ríkisins, þar sem íbúar eru um 544 þúsund. Wyoming er níunda stærsta ríki Bandaríkjanna, tæpleg 254 þúsund ferkílómetrar, eða ríflega tvöföld stærð Íslands.
Ræktunarskilyrði í ríkinu eru mjög fjölbreytileg og ráðast mikið af mismunandi hæð yfir sjávarmáli. Lægst liggur landið í um 970 metra hæða yfir sjó og hæst í rúmlega 4.000 metra hæð yfir sjó. Hitastigið í ríkinu rokkar frá um -7°Celsíus yfir vetrartímann og yfir 32°C á sumrin. Meðalhitinn er um 7,6°C, eða nálægt tveim gráðum hærri en í Reykjavík.

Ræktunartímabilið í  Wyoming er frá 60 dögum á þeim svæðum sem hæst standa til 140 daga á lægstu svæðunum í austanverðu ríkinu.

Bændur eru um 11 þúsund og helsta ræktunin í Wyoming er á heyi fyrir nautgriparækt sem er langstærsta búgreinin. Ræktun á hveiti er einnig umtalsverð sem og á korni. Þá eru einnig nokkuð öflugir sauðfjárbændur í ríkinu sem er fjórða stærsta sauðfjárræktarríki Bandaríkjanna. Framleiða þeir talsvert af ull eða um 1.400 tonn á ári. Þá má líka nefna svínarækt, hrossarækt, alifuglarækt og býflugnarækt.

Þar hefur US Department of Agriculture’s National Agriculture Statistics Service (NASS), sem er eins konar hagfræðistofnun landbúnaðarins, haldið utan um manntal og aðrar tölur í ríkinu allt frá árinu 1840. Enn nákvæmari tölfræðileg gagnasöfnun hófst þar eftir að ríkið gekk í bandaríki Norður-Ameríku (USA). Í upphafi var talnasöfnunin þó ekki sérlega samhæfð svo skýrsluhöfundar miðuðu sína rannsókn að mestu við tölur frá 1940 til 2007 á landsvísu, en á tölur frá 1920 til 2007 hvað varðar einstök ríki.

Í rannsókninni kom fram að línulegt samræmi er á milli hækkandi aldurs bænda og minnkandi nýliðunar. Frá 1940 hafa allar sýslur í Wyoming nema tvær [Sweeter og Natrona] mátt horfa upp á mikla fækkun bænda undir 34 ára aldri.

Hrikaleg staða

Þegar niðurstöður rannsóknarinnar eru settar í spálíkan sýnir það hrikalega stöðu. Árið 2033 verður enginn bóndi undir 35 ára aldri starfandi í landinu. Árið 2050 verða um 30% allra bænda og stjórnenda í landbúnaði á aldrinum 55 til 64 ára og 34% verða 65 ára eða eldri. Meðalaldur bænda og landstjórnenda mun því hækka um 40 til 60% frá því sem hann var árið 1920. Fjöldi býla í landbúnaði hafi náð hámarki í ríkinu á fjórða áratug síðustu aldar. Nú séu býlin helmingi færri en þá var.

Hvernig á að tryggja stöðugleika landbúnaðar?

Höfundar rannsóknarinnar segja að samfélagsþróun í Wyoming samsvari þróuninni á landsvísu sem veki ýmsar mikilvægar spurningar. Þar nefna þeir m.a. hvernig menn ætli að tryggja stöðugleika í landbúnaði og hvað muni gerast ef það tekst ekki. Hvernig eigi að tryggja nýliðun í landbúnaði og laða ungt fólk að þessari mikilvægu grein.  Um leið og menn horfi fram á þá staðreynd að bændur verða sífellt eldri, þá horfi menn fram á þá grundvallarspurningu, hvernig eigi að viðhalda þekkingu og visku þessara bænda sem séu mikilvægur þáttur í menningararfleifðinni. 

Lítil nýliðun stærsta ógnin

„Kannski er stærsta ógnin í þróun landbúnaðar falin í þeirri öldrun bænda og lítilli nýliðun sem er að eiga sér stað.

Stöðug umbreyting ræktarlands til annarra nota en landbúnaðar stafar af ýmsum ástæðum og hefur verið viðvarandi í Bandaríkjunum áratugum saman. Í mörgum landshlutum telja bændur að meginorsök fyrir sölu á landi þeirra og öðrum eignum stafi af því að enginn þeirra erfingja vilji taka við búskapnum. Þá hafi breytingar á landbúnaði, stækkun búa og annað gert það að verkum að þeir sem hafi á annað borð áhuga á að taka við ráði hreinlega ekki við það vegna kostnaðar. Í Bandaríkjunum sé staðan víða sú að ungir bændur skuldi orðið meira en sem nemur verðmæti búanna. Þeir séu kannski ríkir af landi, en í raun fjárhagslegir fátæklingar. Þessi staða ýti undir það að landeigendur selji eignir og tæki út úr greininni í stað þess að reyna að fá aðra til að taka við. Um leið og sífellt færri ungir einstaklingar sýni áhuga á að fara inn í greinina, eða hafa fjárhagslega getu til að taka við fjölskyldubúunum, þá sjá sitjandi bændur sem eru sífellt að eldast fátt annað í stöðunni en að selja land og eignir út úr þessari grein.“

Um 0,66 hektarar tapast á mínútu

Skýrsluhöfundar benda einnig á að líklegt sé að minni fjölskyldubúin fari í aukið samstarf í gegnum einhvers konar samvinnufélög. Þannig að slík fyrirtæki verði eins konar samnefnari fyrir mörg lítil fjölskyldubú. Annars sé þróunin mjög hröð í þá átt að taka landbúnaðarland undir aðra notkun. Í dreifbýlinu, ekki síst í ríkjum sem liggja að Klettafjöllunum, hafi 24 milljónir ekra (um 9,6 milljónir hektara) ræktarlands verið tekið undir önnur not en landbúnað á 28 ára tímabili frá 1982 til 2010. Þannig hafi gróflega talið tapast um 0,66 hektarar á mínútu.

Minnkun ræktarlands hefur alvarleg umhverfisáhrif

Tap á ræktarlandi í dreifbýlinu hafi ekki einungis áhrif á minnkandi getu landsins til að framleiða mat, heldur verði það land sem eftir er stöðugt viðkvæmara. Ræktunaraðferðir, ofnýting jarðvegs, einsleitni í ræktun og áhrif breytinga á landi á grunnvatnsbúskapinn spili þarna stóra rullu. Fyrir Wyoming, sem eigi sér langa hefð og mikla sögu í landbúnaði, séu félagslegu áhrifin mjög mikil. Þetta ríki hafi frá fyrstu tíð verið land kjötframleiðslu og smáþorpa. Þótt breytingarnar séu hvorki alslæmar né algóðar, þá sé þarna um að ræða aðför að grunnrótum samfélagsins og menningarhefðum.

Viska og sérþekking bænda glatast þegar keðjan rofnar

Í skýrslunni segir að hættan vegna umbreytingar landsins sé mikil og til viðbótar komi öldrun bænda sem hafi mikil áhrif á samfélagslega þróun og valdi hættu á að mikilvæg þekking glatist. Aukin menntun ungra bænda í rekstrarstjórnun geti þó verið mikilvægur hlekkur í að tryggja framtíð landbúnaðarins. Þannig mætti hugsanlega gera greinina meira spennandi og hvetja ungt fólk til að gerast framleiðendur í landbúnaði.  Hins vegar sé bókvitið ekki allt. Það tapist margt þegar eðlileg kynslóðaskipti eigi sér ekki stað í landbúnaði. Viska og sérþekking sem safnast upp á hverju býli og flyst áfram frá kynslóð til kynslóðar sé óbætanleg ef keðjan rofnar. Skilningur á  þörfum landsins, lífríkinu, vatnsbúskap, staðbundnum dýrasjúkdómum og samhengi allra þessara hluta glatist oft auðveldlega þegar faglegir og gallharðir rekstrarmenn verði ráðandi afl í greininni. 

Von greinarinnar talin felast í hagnýtri fræðslu

Þrátt fyrir neikvæða þróun er bent á gott gengi áætlunar sem gengur undir nafninu „Quivira Coalition New Agrarian Apprenticeship Program“. Þar er um eins konar samvinnu- og  starfsþjálfunarprógramm að ræða fyrir þá sem vilja gerast nýliðar í landbúnaði. Segja skýrsluhöfundar að þetta verkefni hafi gefið einstaklega góða raun við að auka og hraða þekkingaröflun nýliða í greininni. Þá hafi The Rural Landscape Institute, sem er eins konar þróunarstofnun dreifbýlisins, verið með svipað verkefni eða svokallað „Internsip program“.Það gefi ungum bændum og stjórnendum landnýtingar tækifæri til að samhæfa reynsluna úti á mörkinni við þá visku sem skólarnir geti miðlað. Verkefnið gefi mönnum um leið færi á að öðlast prófgráðu samhliða því að þróa hagnýta þekkingu í greininni. Þetta ásamt inngripum stjórnvalda við að auka þekkingu á lánum og öðrum fjármálum, sem og þekkingu á umhverfisþáttum, gæðamálum og öðru, hafi stuðlað að því að vekja áhuga ungmenna á landbúnaði. Með slíku segja skýrsluhöfundar að ekki sé einungis hægt að laða ungt fólk að landbúnaði, heldur einnig að viðhalda miðlun þekkingar á milli kynslóða í greininni. 

 

 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...