Fimm áburðartegundir voru teknar af skrá á síðasta ári
Matvælastofnun hefur birt skýrslu um áburðareftirlit á síðasta ári. Það voru tekin 50 sýni í vor af jafnmörgum tegundum og hjá fimm innflutningsfyrirtækjum, auk þess sem merkingar og umbúðir voru skoðaðar. Efnagreiningar fimm áburðartegunda sýndu gildi undir leyfðum vikmörkum.
Ein áburðartegund frá Búvís stóðst ekki kröfur og fjórar frá Fóðurblöndunni. Áburðartegundirnar hafa verið teknar af skrá og má ekki dreifa þeim fyrr en Matvælastofnun er búin að taka sýni af þeim og láta efnagreina og niðurstöður þeirra sýni að áburðurinn stenst kröfur.
Kadmíum ekki yfir leyfilegum mörkum
Kadmíum var alls staðar undir leyfðum mörkum, en það var mælt í öllum áburðartegundum sem innihalda fosfór. Það var oftast undir mælanlegum mörkum.
Á síðasta ári fluttu alls 24 fyrirtæki inn 302 tegundir af áburði og jarðvegsbætandi efnum. Innlendir framleiðendur voru 15 á skrá og því voru áburðarfyrirtæki samtals 39 með skráða starfsemi árið 2020.
Nálgast má eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar fyrir síðasta ár, og nokkur ár aftur í tímann, á vefnum mast.is.