Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Anna Berg Samúelsdóttir.
Anna Berg Samúelsdóttir.
Á faglegum nótum 11. desember 2015

Viðhorf almennings, birtingarmynd hagsmunaaðila og kauphegðun neytenda

Höfundur: Anna Berg Samúelsdóttir
Nú á haustdögum, 30. september sl., varði ég ritgerð mína til meistaraprófs í landfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber titilinn „Íslenskur landbúnaður og velferð búfjár: Viðhorf almennings, birtingarmynd hagsmunaaðila og kauphegðun neytenda“. 
 
Ég kannaði viðhorf neytenda til íslensks landbúnaðar og velferð búfjár og hvort viðhorfin haldist í hendur við innkaupahegðunina. Leiðbeinendur verkefnisins voru þau Karl Benediktsson, prófessor  í landfræði, og Magnfríður Júlíusdóttir, lektor í landfræði við Háskóla Íslands. Prófdómari var dr. Ólafur Dýrmundsson búfjárfræðingur. 
 
Efnistök rannsóknar
 
Meistararannsóknin var unnin með aðferðarfræði eigindlegra rannsókna, sem mikið eru notaðar í félagsvísindum, og byggir að stofni til á viðtölum við ellefu einstaklinga. Þátttakendurnir áttu það allir sameiginlegt að vera virkir í heimilishaldi og sjá um innkaup og eldamennsku. 
 
Birtingarmynd hagsmunaaðila var einnig greind og þá út frá kynningarefni þeirra til þess að skoða mætti samhengi þeirrar ímyndar sem þar birtist og ímyndar viðmælenda af íslenskum landbúnaði. Þá var þróun í lögum og reglugerðum á Íslandi er varða velferð búfjár skoðuð, ásamt þróun í aðbúnaði búfjár til þess að hægt væri að meta stöðu dýravelferðar hér á landi. 
 
Í þessari grein verður einungis fjallað um þann hluta niðurstaðnanna er tengist viðhorfum og kauphegðun þátttakendanna á íslenskum búfjárafurðum. 
 
Upphafið
 
Það var aldrei vafi á efnisvali lokaritgerðar til meistaragráðu þar sem íslenskur landbúnaður og velferð búfjár er mér afar hugleikið efni. Einnig var óvænt mótspyrna frá einstaklingum innan menntastofnunar landbúnaðarins í upphafi verkefnisins varðandi efnistök og aðferðarfræði rannsóknarinnar staðfesting á mikilvægi þessarar rannsóknar. Meðbyr og áhugi leiðbeinanda míns við Háskóla Íslands er ástæða þess að rannsókn þessi varð að veruleika.
 
Í grunninn er ég búfræðingur að mennt frá Hólum í Hjaltadal, 1989–1991, tók landbúnaðartæknifræðipróf frá Dalum Landbrugsskole 2005–2007, BS-gráðu í náttúrufræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands 2007–2010 og nú að síðustu hef ég lokið meistaraprófi í landfræði frá Háskóla Íslands. 
 
Ímynd íslensks landbúnaðar
 
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að neytendur hafi þá ímynd af íslenskum landbúnaði að hann sé hreinn og náttúrulegur og að frelsi og velferð búfjár sé almennt mikil. Íslenskt sauðfé var talið njóta hámarkslífsgæða vegna sumardvalar á heiðum en alifuglar og svín lökustu lífsgæðanna vegna inniveru sinnar. Lykilþættir í velferð búfjár var að mati viðmælendanna nægilegt fóður, gott rými, útivist og gott atlæti. Útivist kúa hafði hér sérstöðu og viðbrögð sumra við því að kúm væri ekki hleypt út á sumrin voru sterk, eða eins og einn viðmælandinn orðaði það, að hleypa þeim ekki út er „mannréttindabrot á kúm“. 
Viðbrögð yfirvalda við brotum á velferð og réttindum dýra voru talin í ólestri. Kerfið sé óskilvirkt og svíki skepnurnar þegar vandamál komi upp. 
 
Viðhorf og veruleikinn
 
Viðhorf viðmælenda til verksmiðjubúskapar, það að ala skepnur innandyra, var að við slíkar aðstæður væri skepnum búnar óviðunandi aðstæður en á sama tíma sé þetta nauðsynlegt. Viðmælendurnir töldu að hér á landi væri lítið um slíkan landbúnað nema þá helst í alifugla- og svínaeldi. Að mati þeirra var íslenskur landbúnaður góður eins og í gamla daga þar sem skepnur voru frjálsar eða að minnsta kosti lömbin á sumrin. 
 
Viðhorfin til íslensks landbúnaðar voru ekki í samræmi við veruleikann í dag, þar sem almenn þekking er einungis á tveimur framleiðslugreinum af sex. En sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla telja einungis tvær búfjártegundir af þeim sex sem eru ræktaðar til manneldis hér á landi (sjö sé eldi nautgripa aðskilið frá mjólkurframleiðslunni). Þessi eldisdýr eru alifuglar (varphænsn og eldisfugl), hross, nautgripir (eldisnaut og mjólkurkýr), sauðfé, svín og minkur (loðfeldur í klæði). Af þessum tegundum eru einungis þrjár búfjártegundir, mjólkurkýr, hross og sauðfé, sem eiga skýlausan rétt á útivist að mati viðmælenda. Hinar fjórar búgreinarnar eru samkvæmt skilgreiningu þeirra sjálfra verksmiðjubúskapur. Þarna komast viðmælendur í mótsögn við sjálfan sig og það almenna viðhorf sitt að íslenskur landbúnaður sé góður og þar sé velferð skepna mikil.
 
Kynning hagsmunaaðila
 
Viðhorf viðmælendanna voru í samræmi við þá ímynd sem hagsmunaaðilar í landbúnaði velja að birta í kynningarefni sínu. Á heimasíðum og í kynningarefni afurðastöðvanna (mjólkur- og kjötvinnsla) er sterk tenging við íslenska náttúru og hreinleika hennar. Afurðastöðvar á Íslandi velja þann kost að kynna íslenskar búvörur sem hreina náttúruafurð. Bændasamtök Íslands kynna aðstæður íslensks búfjár sem góðar, útivist og frelsi sumarsins er sett í öndvegi í kynningarbæklingi samtakanna. Aðaláhersla er lögð á framleiðslu lambakjöts og mjólkurafurða ásamt hreinleika íslenska búfjárstofnsins, frelsi dýranna og hollustu íslenskra búvara. Þögn ríkir um aðbúnað alifugla, eldisnauta og svína. Afurðastöðvarnar og BÍ minnast ekki á þessar búgreinar. Neytendum er sýndur þessi búskapur í gegnum tvær búgreinar, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu. Velferð íslensks búfjár er því afgreidd í heild með ímynd frelsis lambanna og hollustu mjólkurinnar. 
 
Það var einungis einn frumframleiðandi í alifuglarækt sem skrifar á heimasíðu sinni að alifuglarækt sé tæknivædd búgrein. Þetta samrýmdist hugmyndum viðmælendanna um búgreinina. Þrátt fyrir að flestir viðmælendanna tengdu alifugla- og svínarækt við verksmiðjubúskap þá vissu þeir lítið sem ekkert um búfjárhaldið í þessum búskap. Hollusta og mataruppskriftir er það sem mætir neytendum þegar þeir skoða heimasíður framleiðenda í alifugla- og svínaiðnaðinum. Hvað varðaði nautakjötsframleiðsluna þá ríkti almennt þögn um aðbúnað þeirra skepna en áhersla var á mjólkurframleiðsluna. 
 
Ljóst er að það hvernig hagsmunaaðilar velja hvað birtist neytendum hefur mikil áhrif á skoðanir viðmælendanna á íslenskum landbúnaði. Bein tenging er á milli þess sem hagsmunaaðilar fræða fólk um og þess sem viðmælendurnir voru best upplýstir um. Það sem er látið ósagt er lítið sem ekkert vitað um. Einnig vissu viðmælendurnir lítið um mismunandi framleiðsluferla, lífrænt, vistvænt og svo hefðbundið. Þeir sem þekktu eitthvað til lífrænnar ræktunar töldu hana mjög kostnaðarsama og dæmi voru um að hún væri talin óþörf á Íslandi þar sem íslenskur landbúnaður væri svo hreinn og náttúrulegur. Hvað varðaði vistvæna framleiðslu vissu fæstir hvað það var, en sögðust vera tilbúnir að versla slíkt væri það hollt og á sama verði og hefðbundið framleidd vara. Hér gætir ruglings hjá viðmælendum á annars vegar hollustu afurða og hins vegar velferð skepnunnar. 
 
Verð og velferð
 
Rekjanleiki vara, það er að segja skortur á upprunamerkingum, var eitt af áhyggjuefnum viðmælendanna þó að þeir sögðust treysta því að í verslunum væru búvörur af íslenskum uppruna. Markaðir eins og Beint frá býli var að þeirra mati betri trygging fyrir bæði réttum uppruna og velferð búfjár. Í stórmörkuðum sé hætta á óskýrum uppruna og innihaldslýsingu auk þess sem neytendur væru oft blekktir þegar þeir kaupi unnar kjötvörur í verslunum. Af þeirri ástæðu höfðu viðmælendur orð á því að þeir keyptu vörur frá ákveðnum afurðastöðvum, framleiðendum sem þeir treystu fyrir gæði. 
 
Í nútímasamfélagi hafa neytendur mikil áhrif á framboð matvara. Skoðun viðmælenda þessarar rannsóknar var sú að þeir vildu geta rakið vöru sína til framleiðandans. Þess vegna sögðust sumir viðmælendanna versla frekar heimaslátraðar afurðir, utan kerfis, fremur en í verslunum, Beint af bónda. Einnig töldu viðmælendurnir heimaslátrun fela í sér meiri velferð, enginn flutningur og minna stress eða eins og einn orðaði þetta: „þeim er gefin væn heytugga og svo skotið beint í hausinn án þess að það viti neitt hvað er að gerast“. 
 
Kauphegðun
 
Samantekt niðurstaðna er að viðmælendur voru sammála um að velferð búfjár skipti þá miklu máli en verð á landbúnaðarvörum reyndist vega þyngra við innkaup. Tilhneigingin var sú að velja það ódýrasta en einnig gat heilsufarssjónarmið vegið þungt. Viðmælendurnir lýstu togstreitu sem skapaðist við innkaupin þegar þrjú sjónarmið tókust á: Verð, hollusta og vilji til að búfé nyti velferðar. Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar vildu viðmælendurnir setja velferð búfjár ofar verði, en raunveruleikinn hjá þeim var oftast annar. Fjárhagurinn ræður þar mestu og það væri rammíslensk staðreynd sem viðmælendurnir sögðust standa frammi fyrir í innkaupum á búvörum. Af þessu má álykta að það sé eitt að vera á móti verksmiðjubúskap og annað að kaupa í matinn. 
 
Ábyrgð á velferð búfjár
 
Niðurstöður rannsóknarinnar varpa meðal annars ljósi á ástæður þess að verslunarhegðun getur verið á skjön við skoðanir fólks og orðræðuna í samfélaginu. Þess vegna er mikilvægt að þora að stíga inn í umræðuna um velferð búfjár í framtíðarplönum fyrir greinina. Bíóbú hefur sýnt fram á að það skref að hafa mannúðarsjónarmið að leiðarljósi við búfjáreldi er gerlegt. Ábyrgð neytenda, gagnvart velferð og aðbúnaði búfjár, er mikil og þess vegna er mikilvægt að merkingar og réttar upplýsingar séu trúverðugar. En niðurstöðurnar sýna einnig að ábyrgði á velferð búfjár getur seint verið stýrt af markaðseftirspurninni eini saman, út frá framboði og eftirspurn. Inn í þetta samband fléttast aðgerðir yfirvalda með reglugerðum um aðbúnað, lögum um velferð dýra, styrkveitingum og skattlagningu matvæla svo fátt eitt sé nefnt.
Í lokin er vert að benda á að íslenskur landbúnaður er samofinn íslenskri menningu og sögu frá upphafi landnáms. En samskiptin á milli hagsmunahópanna, bænda og neytenda, hófst fyrst með byggðarþróuninni í upphafi síðustu aldar. Samtal þessara hagsmunahópa er í dag margt líkt og um miðja síðustu öld þegar neytendur kvörtuðu um of hátt afurðaverð og bændur sögðust beittir þrýstingi um lægra verð. Til að hægt sé að gæta að velferð og lífsgæðum búfjár verða neytendur, framleiðendur búfjárafurða og yfirvöld að bera sameiginlega ábyrgð. 
 
Anna Berg Samúelsdóttir
 
Hægt er að nálgast ritgerðina inn á skemman.is: http://skemman.is/handle/1946/23106
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...