Framboð hráefna til fóðurframleiðslu á Íslandi ótryggt
Ógnarástand er á erlendum mörk uðum með kornvörur og hráefni til fóðurgerðar. Verðhækkanir höfðu orðið nokkrar í lok síðasta árs – meðal annars samhliða hækkunum á jarðgasi og öðru jarðefnaeldsneyti – og eftir að stríðsátök brutust út í Úkraínu í lok febrúar hafa hækkanirnar stigmagnast.
Matvælaverð hefur sömuleiðis hækkað mikið í mörgum löndum sem ógnar lífsafkomu hinna fátæku þjóða – þeirra sem treysta mjög á innflutning á matvælum – og fátæku fólki hinna velmegandi þjóða.
Framboð á hráefni til fóðurframleiðslu virðist að vissu leyti vera ótryggt og einhverjir hnökrar hafa komið upp hjá íslenskum fóðursölum við afgreiðslu á þeirra pöntunum. Að sögn Hólmgeirs Karlssonar, framkvæmdastjóri Bústólpa, hefur komið upp sú staða hjá þeim nú þegar að ekki hafi fengist það hráefni sem ætlunin var að kaupa. Hann segir að bygg hafi til dæmis alveg verið ófáanlegt um tíma en það hafi verið hægt að leysa með breytingum á fóðuruppskriftum. Meira hafi hlutfallslega verið notað af hveiti til að spara byggið, sem var til á lager hjá þeim. Hann segir að þetta sé mögulegt upp að vissu marki, en hefur aukinn kostnað í för með sér þar sem hveiti er að jafnaði dýrara en bygg.
Óvissa með fóðurframboð næstu mánuði
Hólmgeir segir að fóðurfram leiðendur hafi enga tryggingu fyrir að fá næg hráefni til fóður framleiðslunnar út þetta ár. Margir óvissuþættir spili þar inn í, til dæmis hvað varðar þær birgðir af korni sem eru í Úkraínu núna. Eins hvort eitthvað verði opnað á viðskipti með nýja uppskeru í haust frá Úkraínu og Rússlandi.
Ef það gerist ekki sé ljóst að mikið vanti upp á það magn sem Evrópa þarf af korni.
Söguleg hækkun áburðarverðs komst í hámæli í byrjun árs þegar íslenskir bændur þurftu að takast á við allt að 120 prósenta hækkun og nú virðist sem verðhækkun á tilteknu fóðurhráefni sé farið að nálgast 50 prósent í einhverjum tilvikum frá því í haust. Mestar eru hækkanirnar á einstöku hráefni eins og byggi, hveiti, sojamjöli og maís, en algengustu og mest seldu kjarnfóðurblöndurnar hafa hækkað heldur minna. Snefilefni hafa í einhverjum tilvikum hækkað um 70 prósent í verði.
Styrking íslensku krónunnar á þessu ári hefur hins vegar hægt aðeins á verðhækkunum gagnvart íslenskum bændum.
Svigrúm er lítið til að hagræða hlutföllum og innihaldi í fóður blöndum, þar sem verið er að sækjast eftir ákveðnum eiginleikum fyrir hvert og eitt hráefni.
Allar greinarnar háðar innfluttu fóðri
Helstu hráefnin sem notuð eru almennt í fóðurframleiðslu er bygg, hveiti, sojamjöl og maís ásamt innlendu fiskimjöli. Önnur lykilhráefni eru sykurrófuhrat, repjumjöl, melassi og ýmis snefilefni og vítamín.
Fóðursalar og framleiðendur selja kjarnfóðurblöndur fyrir mjólkurbændur, nautgripabændur, sauðfjárbændur, eggjaframleiðendur og alifuglabændur. Svínabændum er seld hrávara sem þeir blanda á staðnum sem fóður í svínaeldinu. Bygg, hveiti og sojamjöl er uppistaðan í þessu fóðri.
Mjólkur og nautgripabændur eru einnig háðir innfluttu kjarnfóðrinu til að halda uppi afurðamagni þó svo að gróffóður sé aðalfóðrið í þeim greinum.
Áætlað hefur verið að kjarn fóðurgjöfin í mjólkurframleiðslunni skili á bilinu 3040 prósent af því mjólkurmagni sem framleitt er í dag. Mjólkurframleiðslan er nú um 150 milljónir lítra á ári og gerir ekki meira en að anna eftirspurn. Talið er að mikill skaði hlytist fyrir greinina ef þar yrði samdráttur.
Sauðfjárbændur nota hlutfallslega minnst af kjarnfóðri, en fóðrið er þeim þó mikilvægt á fengitíma og fyrst eftir burð ánna.
Fyrirboði um verri þróun
Telja má að þær hækkanir sem eru sýnilegar í dag séu aðeins fyrirboði um enn verri þróun, ef stríðsátökin halda áfram í Úkraínu – þar sem eitt stærsta ræktarland Evrópu er að finna. Vegna stríðsástandsins í landinu er nú þegar ljóst að framboð af korni frá Úkraínu á alþjóðlega markaði í haust verður lítið sem ekkert í samanburði við venjulegt ræktunarsumar, hvernig svo sem átökin þróast, en það er eitt allra helsta útflutningsland heims á kornvörum. Þá eru í gildi viðskiptaþvinganir á Rússland, annað stórveldi í kornrækt, sem torveldar þeim að markaðssetja sínar vörur í Evrópu.
Talið er að nálægt 25 milljónir tonna af korni frá uppskeru síðasta árs komist ekki á markaði frá Úkraínu. En fari ræktunin – uppskera og geymsla – forgörðum þetta árið bætast mögulega 50 milljónir tonna við.
Bandamenn Úkraínumanna vinna hins vegar að því nú sem mest þeir mega að finna lausnir til að koma korninu út úr landinu.
Þrengt að afkomu almennings og bænda
Matvæla og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankinn hafa áætlað að ástandið muni stigmagnast á næstu mánuðum og jafnvel árum. Uppskerubrestur hefur aukinheldur víða orðið í vanþróuðum löndum – til að mynda í Afríku – sem eykur enn á hættuna á alvarlegum fæðuskorti í heiminum og hungursneyð.
Á Íslandi finnur almenningur verulega fyrir matvöruverðs hækkunum um þessar mundir, en frumframleiðendur matvæla ekki síður fyrir verðhækkunum á aðföngum – ekki síst kjöt og eggjaframleiðendur fyrir verðhækkunum á innfluttu fóðri.
Í nýlegu minnisblaði matvæla ráðherra var staðan metin þannig, að ekki væri talin hætta á matvæla eða vöruskorti á Íslandi á næstunni en vöntun á tilteknu hráefni til matvælaframleiðslu gæti orðið til lengri tíma.
Íslenskur byggakur. Í tillögum matvælaráðherra til fæðuöryggis Íslands, sem lagðar voru fyrir ríkisstjórn fyrir skemmstu, kemur fram að ein af undirstöðum fæðuöryggis sé fjárhagsleg afkoma bænda. Markvissa flokkun landbúnaðarlands þurfi til að auðvelda sveitarfélögum ákvarðanatöku í skipulagsmálum, jafnframt því að styrkja þurfi undirstöður jarðræktar. Mynd/ smh
Dregið úr framleiðsluvilja
Þótt fæðuöryggi Íslendinga sé líklega ekki ógnað alveg í bráð má telja líklegt að dregið hafi mjög úr framleiðsluvilja bænda í tilteknum búgreinum, eins og Bændasamtök Íslands (BÍ) hafa bent á.
Versnandi afkomuhorfur eru til dæmis hjá kúabændum og sauðfjárbændum þar sem afurðaverð hefur ekki haldið í við verðhækkanir á ýmsum liðum búrekstrarins.
Í flestum tilvikum eru svína-, eggjaframleiðendur og alifuglabændur algjörlega háðir því að fá innflutta fóðrið þar sem þessi dýr fá ekkert annað fóður. Örfáar undantekningar eru meðal svínabænda þar sem heimafengið fóður er hluti af fóðursamsetningunni. Bændur í þessum búgreinum hljóta því að vera mjög uggandi um framtíð sína – ef einhver óvissa er um fóðurframboð næstu mánaða.
Í tillögum matvælaráðherra til fæðuöryggis Íslands, sem lagðar voru fyrir ríkisstjórn fyrir skemmstu, kemur fram að ein af undirstöðum fæðuöryggis sé fjárhagsleg afkoma bænda. Markvissa flokkun landbúnaðarlands þurfi til að auðvelda sveitarfélögum ákvarðanatöku í skipulagsmálum, jafnframt því að styrkja þurfi undirstöður jarðræktar. Allt virðist þetta vera knýjandi mál á þessum ógnartímum.
Nautakjötsframleiðendur hættir að setja gripi á
Unnsteinn Snorri Snorrason, sérfræðingur hjá BÍ og staðgengill framkvæmdastjóra, segir að þær hækkanir sem nú þegar eru komnar fram séu fordæmalausar. „Ef við bara horfum á kostnaðarhækkun á fóðri og áburði þá eru þetta að lágmarki 6-7 milljarðar í hækkun milli ára.“
Hann segir að bændur hafi í gegnum tíðina orðið að taka á sig verðhækkanir eða lækkun á afurðaverði einfaldlega með því að lækka sín laun eða jafnvel borga sér engin laun. „Nú er hins vegar staðan sú að bændur þurfa að taka ákvörðun um að borga með framleiðslunni með tekjum utan bús.
Það er ljóst að það hefur enginn getu til þess til langs tíma. Enda finnum við það í samtölum við okkar bændur að nautakjötsframleiðendur eru hættir að setja gripi á og sauðfjárbændur munu draga verulega saman í ásetningi í haust.
Það sama má segja um alifugla og svínabændur. Þetta er alvarleg staða því það tekur langan tíma að ná framleiðslugetunni upp aftur.“
Slæmt útlit er fyrir íslenska nautakjötsframleiðslu og eru bændur í mörgum tilfellum hættir að setja gripi á. Mynd/ smh
Framleiðslan flyst úr landi
Staða kjötframleiðenda er graf- alvarleg, ekki síst í ljósi þess að dregið hefur verulega úr tollvernd á síðustu árum. „Innlenda fram- leiðslan mun gefa eftir og við tekur aukinn innflutningur á kjöti. Það má ekki gleyma því að bændur eru að framleiða afurðir sem fara í frekari vinnslu hér á landi. Það er gífurlegur fjöldi starfa í húfi upp alla virðiskeðjuna. Ef það verður samdráttur í kjötframleiðslu hér á landi, sem nemur tugum prósenta, þá erum við að sjá á eftir hundruðum starfa sem flytjast úr landi.
Við erum líka að horfa til þess að sú staða geti komið upp að ekki sé til nægt fóður fyrir þá framleiðslu sem er hér í gangi. Þar eru svína- og alifuglabændur í mjög erfiðri stöðu. Þær greinar eru þar að auki sérstaklega viðkvæmar fyrir þessari miklu hækkun fóðurverðs í ljósi þess að fóðurkostnaður er hlutfallslega hár kostnaður í þeirra framleiðslu,“ segir Unnsteinn Snorri.
Á föstudaginn skipaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra starfshóp sem mun vinna að tillögum til að bregðast við afkomuvanda bænda. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum 13. júní og í aðsendri grein í blaðinu í dag gerir hún grein fyrir ástæðum þess að vinna þurfi hratt. Þróunin á aðfangaverðshækkunum geti haft það í för með sér að matvælaframleiðsla á Íslandi kunni að dragast saman. Það hafi hún áttað sig á eftir samtöl við fjölda bænda, auk þess sem þess sjáist merki, til að mynda í fækkun nautgripa og fækkun sauðfjárbænda.