Fuglaflensa á íslensku búi
Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins í Auðsholti í Ölfusi.
Matvælaráðherra hefur fyrirskipað niðurskurð og skilgreint tíu kílómetra takmörkunarsvæði umhverfis búið.
Í húsinu þar sem smitið kom upp eru 1.300 fuglar. Undirbúningur fyrir aflífun fuglanna var þegar hafinn þegar þetta er ritað og fyrirmæli gefin til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Þegar grunur kom upp um smit á þriðjudaginn voru fuglar sendir til rannsóknar á Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum og lágu niðurstöður rannsókna fyrir sama dag. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á vef Matvælastofnunar.
Uppruni smitsins er óljós, en veiran er af sömu gerð og greinst hefur í villtum fuglum í haust. Fuglainflúensa getur mögulega smitað fólk sem er í náinni snertingu við veika fugla en engin hætta stafar af neyslu afurða.