Fuglaflensa greinist í starfsmanni kjúklingabús
Starfsmaður kjúklingabús á Spáni greindist með fuglaflensu í lok september.
Þar með hefur þetta afbrigði tvisvar greinst í mönnum í Evrópu, en fyrra skiptið var á Bretlandi í desember 2021. Í báðum tilfellum hafa hinir smituðu fengið veiruna við meðhöndlun á sýktum fuglum. Starfsmaður spánska búsins var með mjög lítið magn smitefna, án einkenna og er nú laus við veiruna.
Málið má rekja til þess að plágur komu upp á tveimur kjúklingabúum í Guadalajara, skammt frá Madrid á Spáni. Mikið smitálag fuglaflensu hefur verið í Evrópu undanfarin misseri og er afbrigðið sem gengur núna bráðdrepandi fuglum.
Með þessum tveimur faröldrum hefur fuglaflensa greinst á spænskum kjúklingabúum 36 sinnum á árinu. Yfirvöld á svæðinu telja ástandið ekki áhyggjuefni eins og er. Mjög sjaldgæft er að fuglaflensa smitist milli manna. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur áhyggjur af að með fjölgun tilfella fuglaflensunnar í villtum og tömdum fuglum komi fram stökkbreytt tilfelli sem berist milli manna.
Nokkrir litlir faraldrar hafa komið upp undanfarna áratugi og hefur dánartíðni verið há.