Fuglaflensutilvikum fer fækkandi í Bretlandi og Þýskalandi
Þann 16. apríl síðastliðinn var ekki vitað um nein ný tilfelli fuglaflensusmits af H5N8 stofni (highly pathogenic avian influenza - HPAI) í alifuglum í Bretlandi. Þá hafði aðeins verið tilkynnt um eitt nýtt tilfelli í villtum fugli í Englandi samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar sem fer með málefni matvæla- og dreifbýlismála. Þykja það trúlega gleðitíðindi í ljósi aragrúa farfugla sem nú eru komnir til Íslands.
Frá 3. nóvember til 16. apríl hafði verið tilkynnt um 19 tilvik í alifuglum í Bretlandi, þar af 15 í Englandi, eitt í Wales, eitt í Skotlandi og tvö á Norður-Írlandi. Þá voru staðfest fimm tilvik í öðrum tegundum fugla sem haldið er í búrum.
Tilfellum smita af HPAIV H5 fuglaflensuveiru í villtum fuglum hefur farið fækkandi á undanförnum vikum. Síðasta staðfesta fuglaflensusmitið í villtum fugli var af HPAI H5N1 stofni sem getur líka smitast í menn. Fannst smitið í ránfuglstegundinni Mivus milvus sem líka er kölluð „Red Kite“.
Alls 317 smittilfelli í villtum fuglum í Bretlandi
Þann 16. apríl síðastliðinn hafði verið tilkynnt um samtals 317 tilvik af fuglaflensu í villtum fuglum í Bretlandi. Þar af voru 11 smit af HPAI H5N1 stofni, 6 smit af H5N5 stofni, 290 af H5N8, 1 tilfelli af H5N3 og 9 smittilfelli af H5Nx stofni.
Á sama tíma hafði verið tilkynnt um 87 smittilfelli af H5N8 í alifuglum í Þýskalandi. Þar af voru 46 tilfelli vegna hænsna og annarra alifugla sem fólk er með í sínum bakgörðum. Þá voru 32 smittilvik í alifuglaeldi í Póllandi og 11 í Tékklandi auk 15 tilvika þar í landi í fuglum í bakgörðum fólks.
Í villtum fuglum hafði þá verið tilkynnt um fuglaflensu af HPAI H5N8 stofni í Tékklandi, Frakklandi, Grikklandi, Noregi, Póllandi og í Svíþjóð. Þá hafði verið tilkynnt umsmit af HPAI H5N5 veirustofni í Rússlandi og Svíþjóð. Eins hafði verið tilkynnt um smita af HPAI H5 stofni í villtum fuglum í Úkraínu. Þar að auki hafi smit af HPAI H7N7 stofni fundist í svani í Litháen.
Smitum í villtum fuglum fækkar í Þýskalandi
Samkvæmt upplýsingum Friedrich Loeffler-stofnunarinnar í Þýskalandi hafði verið tilkynnt um 50 smit í villtum fuglum í Þýskalandi og þá aðallega í norðanverðu landinu á tímabilinu 1. til 12. apríl síðastliðinn. Á tíu dögum þar á undan hafði verið tilkynnt um 121 smittilvik.