Heildargreiðslumark 152 milljón lítrar
Framkvæmdanefnd búvörusamninga leggur til við matvælaráðherra að heildargreiðslumark mjólkur árið 2025 verði 152 milljón lítrar.
Framkvæmdanefndin fundaði miðvikudaginn 13. nóvember síðastliðinn þar sem hún samþykkti samhljóða tillögu um hækkun greiðslumarks um hálfa milljón lítra miðað við greiðslumark ársins 2024. Tillagan kemur frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og byggir fyrst og fremst á áætlaðri neyslu mjólkurvara á innanlandsmarkaði á árinu 2025 og stöðu og vænta þróun birgða mjólkurvara á sama tíma, að því er fram kemur í fundargerð framkvæmdanefndar búvörusamninga.
Að lokinni afgreiðslu nefndarinnar fer breytingin formlega fram með reglugerðarbreytingu sem tekur gildi um áramótin.