Heimild fyrir auknu kadmíuminnihaldi
Þann 12. ágúst sl. gekk í gildi ákvæði til bráðabirgða á reglugerð um ólífrænan áburð. Í ákvæðinu, sem gildir til ársloka 2023, er aukið við leyfilegt hámark kadmíum í tilbúnum áburði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá matvælaráðuneytinu.
Þetta er viðbragð við yfirvofandi áburðarskorti þar sem lokast hefur á útflutning á áburðarefnum frá Rússlandi. Þar eru helstu námur heimsins sem gefa fosfór með lágu kadmíuminnihaldi og hafa íslenskir áburðarsalar stólað á áburð þaðan. Nú er líklegt að flytja þurfi inn áburðarefni úr miklum námum í Vestur-Sahara þar sem fosfórinn er katmíumríkur.
Kadmíum er þungmálmur sem safnast upp í jarðvegi og getur haft neikvæð áhrif á heilsu fólks. Óljóst er þó hversu mikið magn endar í fæðu við íslenskar aðstæður.
Fyrri útgáfa reglugerðarinnar gaf leyfi fyrir allt að 50 mg kadmíum pr. kg fosfórs. Með nýjustu breytingum má þetta magn fara upp í 150 mg kadmíum pr. kg fosfórs. Evrópusambandið lækkaði fyrir nokkrum árum hámarksmagn fosfórs niður í 60 mg pr. kg. þrífosfats (P2O5), sem er sambærilegt núgildandi hámarki hér á landi.
Leiðrétting: Bændablaðið birti frétt um þetta mál í blaðinu 9. september síðastliðinn. Þar var gefinn upp rangur gildistími reglugerðarinnar. Einnig var notuð röng mælieining á hámark kadmíum í áburði innan ESB.