Herferðir auka lambakjötssöluna í Noregi
Afurðastöðin Nortura í Noregi hefur aukið sölu lambakjöts um 33 prósent það sem af er þessu ári. Herferðir fyrir páskana og í sumar ásamt auknu vöruúrvali í verslunum hefur leitt af sér þennan mikla vöxt.
Sauðfjárbændur um allt landið tóku virkan þátt með því að gefa smakk á lambakjöti fyrir utan 42 verslanir í sérstöku grillátaki.
33% söluaukning
Nýjar tölur frá Nortura sýna að félagið hefur selt 832 tonnum meira af lambakjöti samanborið við sama tíma í fyrra sem er 33 prósenta aukning. Fyrirtækið hefur einnig staðið fyrir átaki til að selja meira af öðru kindakjöti og hefur sala á því aukist um 65 prósent frá sama tímabili í fyrra. Í lok júní hafði selst 6.290 tonn af lamba- og kindakjöti í Noregi sem er 165 prósenta aukning frá sama tíma í fyrra. Tölur sýna að í hverri viku á þriggja vikna tímabili voru tekin um 100 tonn aukalega út af lager í sölu en þrátt fyrir þetta eru enn hátt í þúsund tonna umframbirgðir til af lamba- og kindakjöti.
Herferðirnar sem Nortura hefur ráðist í eru tvennskonar og hafa snúist um að auka sölu á lambakjöti en einnig að auka vitund fólks um hlutverk sauðkindarinnar. Þar að auki eiga herferðirnar að stuðla að því að gera lambakjöt að heilsársvöru.
Bændur fóru í verslanir
Fyrsti liður í herferðinni leiddi til aukinnar sölu á grillpylsum en þá stóðu sauðfjárbændur fyrir utan 42 verslanir og buðu upp á smakk sem leiddi til þess að allt seldist upp inni í verslununum þar sem smakkið var í boði þrátt fyrir að grillveður hafi verið af ýmsum toga í sumar í landinu. Samhliða grillátakinu voru útstillingar í verslunum lagfærðar sem bar árangur. Nortura gerði samning í upphafi árs við þrjár stærstu matvörukeðjurnar til að auka sölu á lambakjöti því ef ekkert hefði verið aðhafst gætu um 4.600 tonn af kjöti legið óhreyfð í frystigeymslum í lok árs.
Allir þessir þættir hafa skilað aukinni sölu en þrátt fyrir það hafa sauðfjárbændur þurft að borga sinn hluta af átakinu því þeir fá um 65 íslenskum krónum lægra fyrir kílóið en á sama tíma í fyrra. Á þann hátt, það er að segja með að veita lægri styrki og afslætti til bænda, er slíkt aukaátak fjármagnað í Noregi.