Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda og Erlendur Á. Garðarsson, framkvæmdastjóri IM ehf., markaðs-, þjónustu- og útflutningsfyrirtæki sem þjónustar búgreinar og sláturleyfishafa.
Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda og Erlendur Á. Garðarsson, framkvæmdastjóri IM ehf., markaðs-, þjónustu- og útflutningsfyrirtæki sem þjónustar búgreinar og sláturleyfishafa.
Fréttir 10. febrúar 2017

Hrossa- og folaldakjöt selt til Japan

Höfundur: Vilmundur Hansen

Frá því í október á síðasta ári hafa verið flutt út um 600 kíló af hrossakjöti til Japan. Hrátt hrossakjöt þykir mikið lostæti í landinu og verðið sem fæst fyrir kjötið er það hæsta sem fæst fyrir kjöt sem flutt er út frá Íslandi.

Erlendur Á. Garðarsson, framkvæmdastjóri IM ehf., markaðs-, þjónustu- og útflutningsfyrirtæki sem þjónustar búgreinar og sláturleyfishafa, og Sveinn Steinarsson, Formaður félags hrossabænda, segja upphafið lofa góðu og vonast til að útflutningurinn eigi eftir að aukast þegar líður á árið.

Erlendur segir forsögu þess að farið var að leita markaðar fyrir hrossa- og folaldakjöt í Japan hafi verið gott og árangursríkt starf í Rússlandi. „Starfið í Rússlandi var vel á veg komið þegar Rússar settu innflutningsbann á matvæli frá Evrópu í kjölfar ágreiningsins um Úkraínu. Innflutningsbannið kom sér verulega illa fyrir okkur þar sem Rússland var orðið eitt stærsta viðskiptaland okkar þegar kom að útflutningi á hross- og ærkjöti auk þess sem innflutningur þeirra á dilkakjöti hafi aukist talsvert.“

Japan er stór markaður

„Með tilkomu innflutningsbannsins hófst, í samvinnu við atvinnuvega- og utanríkisráðuneytið, athugun á því hvort hægt væri að flytja hrossakjöt til Japan.

Markaðurinn í Japan er gríðarlega stór á okkar mælikvarða en þar búa ríflega 120 milljón manns. Japanir neyta um 15 þúsund tonna af hrossakjöti á ári og af þeim eru um 8 þúsund tonn flutt inn. Fyrr á árum fluttu Íslendingar talsvert af fitusprengdum hrossavöðvum til Japan á mjög góðu verði.

Verkefnið sem nú er í gangi hófst í fyrravetur þegar sendar voru út nokkrar tilraunasendingar,“ segir Erlendur.

Japanir borða hrossakjöt hrátt

Sveinn segir að Japanir borði hrossakjötið hrátt og því sé um mjög viðkvæma vöru að ræða. „Hrossakjöt er eina kjötið sem leyfilegt er að bera fram hrátt á veitingastöðum eða flytja inn til hráneyslu í Japan. Það gilda því mjög strangar reglur um meðferð á hráu hrossakjöti í Japan og eftirlit með vinnslu á því strangt. Kröfur um hreinlæti eru miklar og krafist er góðrar kælingar og hraðra flutningsleiða. Kjötið er því allt flutt til Japan með flugi.

Vörurnar sem við erum nú að semja um sölu til Japan eru aðallega þrír fitusprengdir vöðvar. Japanarnir hafa einnig áhuga á allri lifur sem til fellur sem þeir borða líka hráa og tungum sem þeir léttsteikja í ákveðna rétti. Hrossafita er einnig eftirsótt í snyrtivörugerð í Japan og þá aðallega smyrsl. 

Ef af líkum lætur og verðið er þokkalegt erum við að vonast til að geta selt alla hrossafitu til Japan í náinni framtíð.“

Dýrasta kjötið sem flutt er frá landinu

Erlendur segir að verðið sem fáist fyrir hrossakjötið sé mjög gott og að í dag sé það dýrasta kjöt sem Íslendingar flytji út. „Samstarfið við sláturleyfishafa hér heima og flutningsaðila er mjög gott og ein af forsendunum fyrir því að við erum að fá gott verð fyrir afurðirnar.“

Hrossakjöt illa nýtt

Sveinn segir að eiginleg hrossakjötsframleiðsla sé ekki stunduð sem slík á landinu. „Aftur á móti fellur alltaf eitthvað til af kjöti af hrossum sem er verið að afsetja eða hrossum sem passa ekki inn á lífhrossamarkaðinn. Þeim hrossum þurfum við að finna farveg og um leið að hámarka virði hvers grips og nýta hann eins og hægt er.

Það hefur lengi farið fyrir brjóstið á okkur hversu lítill hluti hrossa er nýttur, nánast fáeinir vöðvar og restinni að mestu fargað. Sem stendur erum við að senda út um 600 kíló á viku en vonumst til að það magn eigi eftir að aukast í tvö og hálft til þrjú tonn á viku þegar líða fer á árið.“

Sendiráð Íslands í Japan unnið mikið starf

Erlendur og Sveinn segja að samstarf milli hrossabænda, afurðastöðva og útflutningsaðila hafi verið mjög gott.

„Samstarfið við utanríkisþjónustuna og atvinnuvegaráðuneytið hefur eins verið mjög gott. Starfsmenn íslenska sendiráðsins í Japan hafa einnig verið allir af vilja gerðir til að aðstoða okkur og ólíklegt að við hefðum náð þeim árangri sem náðst hefur án aðkomu þeirra.
Landssamtök sauðfjárbænda og atvinnuvegaráðuneytið hafa einnig komið að þessu máli og verið okkur samstiga í því,“ segir Erlendur. 

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð
Fréttir 2. janúar 2025

Framleiðsla graspróteins óhagstæð í náinni framtíð

Vænlegast þykir enn sem komið er að horfa til notkunar á verkuðu votheyi til nýt...

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð
Fréttir 2. janúar 2025

Kolefnismarkaðir fá lagalega umgjörð

Lagt er til að hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að þær verði ...

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild
Fréttir 30. desember 2024

Búsæld seldi KS- hlutinn í heild

Búsæld seldi hlut sinn í Kjarnafæði Norðlenska (KN) í heild til Kaupfélags Skagf...

Styrkir til verslana
Fréttir 30. desember 2024

Styrkir til verslana

Sex dagvöruverslanir í minni byggðarlögum kringum landið hlutu styrki frá innvið...

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans
Fréttir 27. desember 2024

Jólatrjáalundur hreindýrabóndans

Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Grænlandi, hefur gróðursett tré á landi...

Kyngreining sæðis hafin
Fréttir 27. desember 2024

Kyngreining sæðis hafin

Við Nautastöð Bændasamtaka Íslands á Hesti í Borgarfirði hefur verið komið upp f...

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...