Mælaborð fæðuöryggis
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hleypt af stokkunum nýju mælaborði þar sem farið er yfir stöðu fæðuöryggis í aðildarríkjunum. Þar koma ekki fram vísbendingar um að framboð af matvælum muni skerðast. Hins vegar hefur dregið úr aðgengi borgaranna að fæðu á viðráðanlegu verði.
Nú verður með auðveldum hætti hægt að fylgjast með stöðu fæðuöryggis á mælaborðinu á heimasíðu framkvæmdastjórnarinnar. Þar verða dregin saman áhrif mismunandi þátta, eins og veðurfars og þurrka, flutnings- og orkukostnaðar, dýrasjúkdóma og hugsanlegra viðskiptatakmarkana. Einnig verður tekið sérstakt tillit til hversu sjálfbært sambandið er þegar kemur að hrávöru fyrir landbúnaðinn, eins og stöðu innflutnings á tilbúnum áburði.
Í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórninni kemur fram að þökk sé sameiginlegu landbúnaðarstefnunni (CAP) sé sambandið að mestu sjálfbært þegar kemur að landbúnaðarafurðum, því sé framboði af fæðu ekki ógnað. Helsta áskorunin sé hins vegar hækkað matvælaverð innan ESB. Því mun mælaborðið sýna þróun verðbólgu á mismunandi fæðutegundum í aðildarríkjunum og skoða hversu hátt hlutfall ráðstöfunartekna borgaranna fer í matvælakaup.
Með þessu er vonast til að ná fram auknu gagnsæi um stöðu matvælaöryggis og framboðs af matvælum. Því verður hægt að bregðast skjótar við ef stefnir í óefni. Upplýsingarnar verða uppfærðar með reglulegu millibili og er stefnt að frekari þróun mælaborðsins á árinu 2023 með því að auka myndræna framsetningu.