Nauðsynlegt að auka sjálfbæra neyslu
Forvarnir gegn myndun úrgangs felast í að nýta auðlindir okkar sem best og að koma í veg fyrir framleiðslu eða notkun ónauðsynlegs varnings.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að almennri stefnu um úrgangsforvarnir, „Saman gegn sóun“.
Markmiðið er að þróa samfélag sem hefur skilvirka auðlindanýtingu í fyrirrúmi og að fólk öðlist skilning á gagnsemi fyrirbyggjandi aðgerða sem koma í veg fyrir myndun úrgangs.
Draga úr hráefnisnotkun
Auk fyrrgreindra markmiða er tilgangur stefnunnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að draga úr hráefnisnotkun og að minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi.
Í drögunum er tilgreind nauðsyn þess að auka sjálfbæra neyslu og stuðla að því að lífshættir haldist í hendur við aðferðir sem auka nýtni. Þá þurfi að nýta hluti betur svo þeir verði ekki að úrgangi, draga úr notkun einnota umbúða, stuðla að hönnun vöru með efnum sem ekki eru skaðleg heilsu og umhverfi og auka græna nýsköpun. Þá þurfi að setja viðmið um það hvenær úrgangur hættir að vera úrgangur og teljist vera hráefni sem muni stuðla að frekari nýtingu.
Þannig sé mikilvægt að líta á úrgang sem auðlind sem beri að nýta.
Sérstök áhersla er lögð á níu flokka sem skipt er í tvennt. Annars vegar er um að ræða sex flokka sem verða í forgangi tvö ár í senn en það eru matvæli, plast, textíll, pappír, grænar byggingar og raftæki. Hins vegar eru þrír flokkar sem gert er ráð fyrir að unnið verði með til lengri tíma, þ.e. aukaafurðir frá vinnslu kjöts og fisks, drykkjarvöruumbúðir og stóriðja. Líta beri á aukaafurðir dýra sem hráefni, svo sem til fóðurgerðar, áburðarframleiðslu og moltugerðar. Þá sé mikilvægt að hafa regluverkið skýrt og einfalt til að stuðla að nýtingu þessara hráefna og skapa aukin tækifæri á endurnýtingu.
Umsagnir má senda í tölvupósti á postur@uar.is eða í bréfpósti á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík til og með föstudagsins 23. janúar 2015.