Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Notkun á plöntuverndarvörum á Íslandi lítil
Fréttir 15. september 2016

Notkun á plöntuverndarvörum á Íslandi lítil

Höfundur: Vilmundur Hansen

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gefið út aðgerðaáætlun um notkun varnarefna til ársins 2031. Áætluninni er ætlað að ýta undir þróun nýrra varna í plöntuvernd og innleiða aðferðir sem ekki byggja á notkun efna, í því skyni að draga úr notkun þeirra við matvælaframleiðslu.

Í áætluninni koma fram mælanleg markmið, upplýsingar um notkun varnarefna og tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun. Þar segir að markmiðið sé að draga markvisst úr notkun varnarefna og stuðla að sjálfbærri notkun þeirra í því skyni að draga úr áhættu fyrir heilsu og umhverfið.

Lítil notkun miðað við önnur lönd

Samkvæmt því sem segir í áætluninni er notkun á plöntuverndarvörum á Íslandi lítil miðað við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur oftast saman við þrátt fyrir nauðsyn þeirra í mörgum tilfellum. Þar segir einnig að eðlilegt aðgengi að plöntuvarnarefnum sé beinlínis nauðsynlegt til þess að ákveðnar greinar framleiðslu þrífist hér á landi og séu samkeppnishæfar.

Sé skoðað hvernig notkunin skiptist hér á landi eftir flokkum af plöntuverndarvörum kemur í ljós að langsamlega mest er notað af illgresiseyðum eða um 86%. Notkun á skordýra- og sveppaeyðum er svipuð, 6% og 7%, en stýriefni reka svo lestina með minna en 1% af notkuninni.

Um 33% af plöntuverndarvörum eru notaðar við framleiðslu á matjurtum eða fóðri. Þar er kartöfluræktun efst á blaði með um 22% af heildarnotkuninni sem skiptist þannig að 85% er notkun á illgresiseyðum og 15% á sveppaeyðum.

Plöntuverndarvara í landbúnaði

Í skýrslunni segir um notkun plöntuvarnarefna í landbúnaði að ræktun útimatjurta hafi dregist saman undanfarin ár og gæti það falið í sér samdrátt í notkun á plöntuverndarvörum. Ekki er fyrirséð að notkun illgresiseyða muni aukast í þessari ræktun í framtíðinni. Í ylræktun matjurta er notkun plöntuverndarvara afar lítil og þá aðallega sveppaeyðar. Sömuleiðis er notkun á líffræðilegum vörnum vaxandi við ylræktun blóma.

Í grænfóður- og túnrækt er afar lítið notað af plöntuverndarvörum og ekki útlit fyrir aukningu. Þar sem kornrækt hefur verið stunduð lengi er farið að bera á auknum illgresisvandamálum sem gæti þýtt að grípa þurfi í auknum mæli til illgresiseyða í þeirri ræktun á næstu árum. Þá hefur borið eitthvað á sveppasjúkdómum í korni sem kann að hafa í för með sér aukningu í notkun sveppaeyða.

Notkun eftir ræktun

Um 33% af plöntuverndarvörum eru notaðar við framleiðslu á matjurtum eða fóðri. Þar er kart­öfluræktun efst á blaði með um 22% af heildarnotkuninni sem skiptist þannig að 85% er notkun á illgresiseyðum og 15% á sveppaeyðum.

Um 8% af heildarnotkun plöntuverndarvara á sér stað í ræktun á matjurtum, bæði útiræktun á káli, gulrófum, gulrótum og fleiri tegundum og ylræktun á til dæmis tómötum, gúrku, papriku, salati og berjum. Notkunin skiptist þannig að mest er notað af illgresiseyðum, 48%, næstmest af skordýraeyðum, 40%, og þá einkum gegn kálmaðki, þar á eftir koma sveppaeyðar, 11% og stýriefni reka lestina með 1%.
Notkun á plöntuverndarvörum í korn- og túnrækt telst vera afar lítil eða samtals um 3% af heildinni og skiptist þannig að notkun illgresiseyða er 84% og sveppaeyða 16%.

Vegagerðin, landgræðslan og golfvellir

Vegagerðin notar illgresiseyða til eyðingar á gróðri meðfram vegum og ekki er fyrirséð að henni verði hætt í nánustu framtíð. Nú stendur yfir þróunarverkefni í samstarfi Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar þar sem prófað er að nota heitt vatn til þess að drepa illgresi.

Notkun Landgræðslu ríkisins á plöntuverndarvörum er lítil þótt hún noti eitthvað af illgresiseyðum til eyðingar á lúpínu og við fræræktun. Landgræðslan ríkisins kemur að allnokkrum verkefnum varðandi heftingu á útbreiðslu ágengra tegunda, einkum lúpínu. Þar hefur það sýnt sig að sláttur gefur jafngóða raun og notkun illgresiseyða og því engin ástæða til að mæla með notkun þeirra.

Notkun plöntuverndarvara í skógrækt er nær eingöngu bundin við nýskógrækt þar sem mikil samkeppni er við gras og þá er fyrst og fremst um að ræða illgresiseyða.

Heildarflatarmál golfvalla er rúmir 1.100 hektarar og þar fer fram þaulræktun á grastegundum með miklum kröfum til útlits og áferðar gróðursins. Sveppasjúkdómar eru algengir í grösum og geta haft mikil neikvæð áhrif á yfirborð íþróttavalla. Þar af leiðandi er notkun sveppalyfja á golfvöllum hérlendis nokkur.

Eftir sem áður er notkun illgresiseyða stærstur hluti notkunar plöntuverndarvara á völlunum en auk þess eru notuð stýriefni til þess að móta vaxtarlag grassins.

Garðaúðun

Ekki liggja fyrir upplýsingar um sölu á plöntuverndarvörum til aðila sem stunda garðaúðun en í áætluninni er reynt að áætla notkunina út frá líkani um notkun plötuverndarvara eftir landnotkun gæti hún numið um 80 kíló af virku efni á ári, sem er um 2,5% af heildarnotkun í landinu.

Markmið í aðgerðaáætlun

Markmið aðgerðaáætlunarinnar í notkun á plöntuvarnarefnum 2016 til 2031 eru sett fram í eftirfarandi liðum:

Að Umhverfisstofnun uppfæri fyrir lok árs 2017 og viðhaldi gögnum um markaðssetningu og notkun plöntuverndarvara hér á landi í því skyni að ætíð liggi fyrir bestu fáanlegar upplýsingar um stöðu mála hvað þetta varðar.

Að unnið verði áfram markvisst að því að taka upp varnaraðgerðir gegn skaðvöldum í landbúnaði og garðyrkju sem ekki byggjast á notkun efna, þar á meðal að notast við samþættar varnir í baráttu við skaðvalda.

Að varnarefnaleifar í matjurtum og fóðri sem framleidd eru hér á landi mælist ekki yfir hámarksgildi oftar en tvisvar á ári að jafnaði.

Að áfram verði skimað fyrir öllum virkum efnum í þeim plöntuverndarvörum sem hafa markaðsleyfi til notkunar í ræktun matjurta og fóðurs hér á landi í reglulegu eftirliti með varnarefnaleifum.

Að allur búnaður til dreifingar á plöntuverndarvörum hafi verið skráður, skoðaður og staðist kröfur í samræmi við ákvæði í reglugerð nr. 980/2015 fyrir 31. desember 2021.

Að plöntuverndarvörur til almennrar notkunar hafi undirgengist viðeigandi áhættumat og markaðsleyfi fyrir þeim veitt á grundvelli þess með þeim árangri að dregið er úr áhættu fyrir heilsu og umhverfi vegna notkunar almennings á plöntuverndarvörum. Þessu markmiði verði náð fyrir 31. desember 2025.

Að áfram verði boðið upp á grunnþjálfun til að öðlast þekkingu á meðferð plöntuverndarvara og frá og með árinu 2017 verði boðið upp á viðbótarþjálfun til að auka við grunnþjálfunina á öllu tímabilinu.

Að dregið verði úr notkun plöntuverndarvara í þéttbýli, meðfram vegum og í öðru manngerðu umhverfi, sem og í aðgerðum gegn ágengum tegundum, með því að taka upp aðferðir sem ekki byggjast á notkun efna. Umhverfisstofnun vinni í samráði við Vegagerðina, Landgræðslu ríkisins og Samband íslenskra sveitarfélaga áætlun fyrir lok árs 2019 hvernig ná megi þessu markmiði.

Að dregið sé úr losun á plöntuverndarvörum út í vatnavistkerfið með því að viðhafa verndarbelti þegar þeim er dreift nálægt yfirborðsvatni. Leiðbeiningum þessa efnis verði komið inn í Starfsreglur um góða búskaparhætti fyrir lok árs 2019.

Að halda áfram að vakta vatnavistkerfið í því augnamiði að ganga úr skugga um að þar séu ekki til staðar varnarefnaleifar.

Aðdragandi áætlunarinnar

Áætlunin byggi á ­tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/128/EB frá 21. október 2009 um aðgerðaramma Bandalagsins til að ná fram sjálfbærri notkun varnarefna.

Umhverfisstofnun vann drög að aðgerðaáætluninni og hafði við gerð hennar samráð við Matvælastofnun, Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Bændasamtök Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá leitaði stofnunin eftir upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins, Matvælastofnun, Landgræðslu ríkisins, Suðurlandsskógum, Sambandi garðyrkjubænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Vegagerðinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum íslenskra golf- og íþróttavallastarfsmanna, Vatnajökulsþjóðgarði og Þjóðgarðinum á Þingvöllum. 

Fjögur landeldisfyrirtæki í Bændasamtökunum
Fréttir 14. nóvember 2024

Fjögur landeldisfyrirtæki í Bændasamtökunum

Deild landeldis innan Bændasamtaka Íslands var stofnuð sumarið 2022. Fjögur land...

Bændur læra af hver öðrum
Fréttir 14. nóvember 2024

Bændur læra af hver öðrum

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur undanfarin tvö ár staðið fyrir stýrð...

Skipulega haldið utan um feldfjárrækt í Fjárvís
Fréttir 14. nóvember 2024

Skipulega haldið utan um feldfjárrækt í Fjárvís

Nýverið bárust tíðindi af því að verið væri að setja inn upplýsingar um feldfé í...

Nýtt merki vottar gott starfsmannahald
Fréttir 14. nóvember 2024

Nýtt merki vottar gott starfsmannahald

Friðheimar eru í samstarfi við Báruna, stéttarfélag, að innleiða nýtt merki, Í l...

Nægjusemi í nóvember
Fréttir 13. nóvember 2024

Nægjusemi í nóvember

Landvernd og Grænfánaverkefnið standa fyrir átakinu Nægjusamur nóvember.

Vilja harðfisk á lista UNESCO
Fréttir 13. nóvember 2024

Vilja harðfisk á lista UNESCO

Slow Food Reykjavík vinnur að því að fá vinnsluhefðir tengdar harðfiski og skrei...

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims
Fréttir 13. nóvember 2024

Stefnt að loftslagsvænstu landbúnaðarafurðum heims

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, iðnaðarverkfræðingur og sjálfbærniráðgjafi, lei...

Skrefagjald innleitt
Fréttir 13. nóvember 2024

Skrefagjald innleitt

Ísafjarðarbær hefur ákveðið að innheimta svokallað skrefagjald vegna sorphirðu.