Nýtt jarðhitaleitarátak í pípunum
Jarðhitaleitarátak er hafið fyrir tilstilli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og hefur ráðuneytið staðfest tillögur stjórnar Orkusjóðs um úthlutun styrkja til verkefna um leit og nýtingu jarðhita.
Orkusjóði var í vor falið að sjá um framkvæmd átaks í leit og nýtingu jarðhita árin 2023- 2025, þar sem áhersla væri lögð á stuðning við verkefni sem hefðu það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar.
Alls bárust 25 umsóknir til Orkusjóðs, samtals að upphæð kr. 1.373 m.kr. og alls hlutu átta verkefni styrk að upphæð um 447 milljónir króna sem skiptist þannig að HEF veitur ehf. fengu hæsta styrkinn, tæpar 135 m.kr. í verkefnið Búlandsnes-Djúpivogur. Orkubú Vestfjarða fékk þrjá styrki; rúma 91 m.kr. í 1. áfanga jarðhitaleitar á Ísafirði og Patreksfirði, rúma 51 m.kr. í 2. áfanga Geirseyrar/ Patreksfjarðar og rúmar 45 m.kr. í 2. áfanga á Ísafirði.
Vopnafjarðarhreppur fékk 40 m.kr. úthlutað vegna Selárdalslaugar, Grundafjarðarbær 34 m.kr. í orkuskipti sundlaugar, grunnskóla og íþróttahúss, Kaldrananeshreppur rúmar 25 m.kr. í hitaveituvæðingu bæjartorfunnar og Skaftárhreppur 25 m.kr. til jarðhitarannsókna í hreppnum.
Í skýrslu Íslenskra orkurannsókna fyrr á árinu kom fram að meirihluti hitaveitna landsins stendur frammi fyrir erfiðleikum á komandi misserum. Undanfarin tíu ár hefur húshitunarkostnaður verið niðurgreiddur sem nemur um 2,5 milljörðum á ári. Jarðhitaleitarátakið nú er hið fyrsta á Íslandi í fimmtán ár.