Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Ólíklegt að tréð nái fyrri reisn
Fréttir 8. júlí 2016

Ólíklegt að tréð nái fyrri reisn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Framkvæmdir við byggingu hótels á lóðunum við Laugaveg 34A og 36 og Grettisgötu 17 er í fullum gangi. Illa hefur tekist til við verndun eins elsta trés í Reykjavík sem stendur á Grettisgötulóðinni.

Króna trésins, sem er ríflega hundrað ára gamall silfurreynir og eitt elsta tré landsins, hefur verið illa skert og verulega illa er staðið að verki við verndun trésins. Ólíklegt er að tréð nái aftur fyrri reisn.

Í júní 2014 urðu talsverð mótmæli í kjölfar þess að borgarráð samþykkti á fundi 19. desember 2013 breytingar á skipulagi lóðar við Grettisgötu 17. Ástæða mótmælanna var að á lóðinni stendur einn elsti silfurreynir landsins og hann átti að fella.

Samþykkt í borgarráði

Fundur borgarráðs númer 5297 var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur. Viðstödd voru: Dagur B. Eggertsson, Einar Örn Benediktsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Áslaug Friðriksdóttir og Sóley Tómasdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Birgir Björn Sigurjónsson, Hrólfur Jónsson, Hallur Símonarson, Kristbjörg Stephensen, Björn Axelsson og Ragnheiður Stefánsdóttir. Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Lagt var fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. desember 2013, samanber samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember síðastliðnum, um auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og Grettisgötu 17. R13120079.

Samþykkt.

Ekkisens en ekkert til ráða

Talsverð umræða spratt um málið og sagði Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi um málið á Facebook-síðunni Ræktaðu garðinn þinn: „Hæ hó – ég er hér. Ég vissi ekki af þessum silfurreyni – og þetta er bölvað ekkisens klúður. Því miður. Ræddi þetta aðeins við garðyrkjustjórann okkar og hann sagði okkur hafa fátt í höndunum til að bjarga honum.“

Sem sagt ekkisens klúður og fátt til bjargar og ekkert gert.

107 ára tré

Tréð sem til stóð að fella við Grettisgötu var gróðursett 1908 og því eitt hundrað og sjö ára gamalt í dag, eitt af elstu og fyrstu trjánum sem gróðursett voru hér á landi. Tréð getur lifað í hundrað ár og jafnvel hundrað og fimmtíu ár til viðbótar. Stolt, saga og augnayndi í Reykjavík.

Breyting á skipulagi og hækkun húsa

Í kjölfar mótmælanna var ákveðið af byggingaraðila að breyta skipulagi bygginga á lóðina þannig að tréð fengi að standa. Reyndar leyfði skipulags- og borgarráð Reykjavíkur ýmsar breytingar á byggingarrétti á lóðinni og lét þannig undan kröfum íbúa um „friðun“ trésins. Meðal annars var hækkun hússins leyfð ef tréð yrði varðveitt.

Í frétt á Rúv 13. ágúst 2014 segir „Silfurreynir við Grettisgötu fær að standa samkvæmt ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs í dag. Ráðið ákvað að breyta deiliskipulagi svo tréð fengi að standa.
Íbúar við Grettisgötu höfðu mótmælt harðlega deiliskipulagi sem heimilaði að færa tvö gömul hús fram í götuna vegna hótelbyggingar við Laugaveg.

Eigandi húsanna, sá sem stendur að hótelbyggingunni, lagði fram málamiðlunartillögu sem var samþykkt. Í henni felst að borgin tekur við gömlu húsunum og finnur þeim stað í nágrenninu.

Í staðinn verður garður opinn öllum þar sem silfurreynirinn fær að standa. Á móti verður hluti nýbygginganna við Laugaveg hækkaður um eina hæð.“

Framkvæmdir í fullum gangi

Framkvæmdir verktaka á lóðinni eru í fullum gangi og mikið rask eins og verða vill. Því miður er ekki hægt að sjá að tekið hafi verið tillit til þess að „friða“ átti silfurreyninn á lóðinni.

Króna trésins hefur verið illa skert öðrum megin þannig að greinabygging þess er skökk og ólíklegt að jafnvægi í krónubyggingu náist aftur. Rótarkerfi trésins hefur verið skert að hluta þannig að næringarupptaka þess hefur minnkað. Á lóðinni umhverfis tréð er mikið af steypuafgöngum en efni í þeim eru mjög óæskileg fyrir gróður.

Með því að skerða krónuna á þann hátt sem gert hefur verið hefur þyngdarpunktur trésins verið færður til og vegna rótarskerðingarinnar er tréð óstöðugra.

Sagað hefur verið inn í gamlar greinar með þeim hætti að skólabókardæmi er um hvernig ekki á að saga á greinar á trjám. Fúi í sárið er óhjákvæmilegur og getur hann hæglega smitast inn í stofn trésins og valdið alvarlegum skaða.

Framkvæmd við „friðun“ eins elsta trés landsins er Reykjavíkurborg til skammar. Illa afgreitt í borgarráði, ekkisens sem ekkert er hægt að gera við og ekkert gert við, verktaka til skammar sem er með vanþekkingu að vopni og ekkert eftirlit er af hálfu borgaryfirvalda.

Orð, eftirlit og framkvæmd með „friðun“ eins elsta trés landsins í miðborg Reykjavíkur er ekkert. Ólíklegt er að tréð nái aftur fyrri reisn.

Skylt efni: tré | ræktun | verndu | silfurreynir

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...