Reiknað afurðaverð hækkar um 0,67%
Sláturfélag Suðurlands (SS) hækkaði í síðustu viku afurðaverð til sauðfjárbænda. Reiknað afurðaverð hækkar um 0,67 prósent miðað við áður útgefna verðskrá.
Samkvæmt útreikningum Bændasamtaka Íslands hækkar reiknað afurðaverð SS í 1.050 krónur á kíló dilkakjöts, með öllum álagsgreiðslum, en afurðastöðvar á vegum Kaupfélags Skagfirðinga greiða 1.055 krónur samkvæmt reiknuðu afurðaverði.
Hækkar landsmeðaltal um eina krónu á kílóið við þessa breytingar, fer úr 1.053 krónum í 1.054 krónur á kíló dilka.
Útreikningar Bændasamtaka Íslands á reiknuðu afurðaverði byggja á landsmeðaltali slátrunar og kjötmats í vikum 34–44 árið 2023.
Vægi einstakra vikna í verðinu byggir á sláturmagni á landinu öllu og sömuleiðis kjötmati á landinu öllu eftir einstökum vikum haustið 2023. Vægi afurðastöðva í landsmeðaltali er síðan eftir hlutdeild þeirra í slátrun á tímabilinu í heild.