Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kjötmjöli dreift.
Kjötmjöli dreift.
Mynd / Landgræðslan
Fréttir 19. nóvember 2021

Sama heildarmagn næringarefna í lífrænu hráefni og er í innfluttum tilbúnum áburði

Höfundur: smh

Í byrjun árs var samstarfsverkefni sett af stað sem hefur það meginmarkmið að þróa íslenskan áburð með sjálfbærum framleiðsluaðferðum. Einn liðurinn í þeirri vegferð er að kortleggja lífrænt hráefni á Íslandi sem hentar til slíkrar áburðarframleiðslu og samkvæmt fyrstu niðurstöðum úr þeirri vinnu er ljóst að heildarmagn af lífrænu hráefni, samanlagt það sem er í dag ónýtanlegt og það sem er nýtanlegt, jafngildir því magni næringarefna sem er í innfluttum tilbúnum áburði.

Að sögn Jónasar Baldurssonar verkefnastjóra þá fólst kortlagningin í úttekt á því magni lífræns hráefnis sem fellur til á Íslandi, út frá magni, næringargildi og hvort það sé nýtanlegt eða ónýtanlegt sem áburðarefni í landbúnaði og landgræðslu. Í úttektinni hafi hráefnið verið flokkað í nýtanlegt og ónýtanlegt áburðarefni, þar sem það ónýtanlega er skilgreint sem það hráefni sem ekki er hægt að nýta í dag sökum skorts á innviðum sem leyfa rétta meðhöndlun á því eða af öðrum ástæðum.

Með aukinni fjárfestingu má nýta áburðarefnin mun betur

Í úttektinni kemur fram að lífrænn búfjáráburður er stærsta uppspretta nýtanlegra áburðarefna í dag en mest af ónýtanlegum áburðarefnum er að finna í skólpvatni og matvælum sem sé sóað. Með auknum fjárfestingum væri hægt að nýta þessi efni mun betur en gert er í dag, meðal annars til notkunar í landbúnaði og landgræðslu.

Þá segir í úttektinni að stór hluti næringarefna í lífrænum búfjáráburði sé upprunninn frá tilbúnum áburði. Því skuli varast að draga ályktanir á þá leið að nóg sé til af næringarefnum á Íslandi til að leysa innfluttan tilbúinn áburð alfarið af hólmi í íslenskum landbúnaði og landgræðslu, þó svo að magn næringarefna í lífrænu hráefni sé um það bil það sama og í tilbúna áburðinum.

Innflutningur á tilbúnum áburði 2019 og notkun hans (Mast, 2020).



Auka þarf hlut lífræns áburðar

Jónas segir að það séu margar ástæður fyrir því að huga eigi meira að því að nýta lífrænt hráefni til þróunar á sjálfbærri áburðarframleiðslu, í stað tilbúins áburðar sem framleiddur er í verksmiðjum. Næringarefnin N (köfnunarefni), P (fosfór) og K (kalíum) séu ekki búin til af manninum, heldur tekin úr umhverfinu, ýmist með námuvinnslu, úr andrúmsloftinu eða öðrum iðnaðarferlum. Engin nýmyndun eigi sér á þessum frumefnum og því verði æ erfiðara að nálgast þau. Tilhneigingin sé að þau flytjist með einum eða öðrum hætti út í hafið með skólpi.

Verksmiðjuframleiðsla á köfnunar­efni sé mengandi og ábyrg fyrir um einu prósenti af losun á koltvísýringi í heiminum. Námuvinnsla á fosfór hafi skaðleg áhrif á allt lífríki í námunda við vinnsluna; ofauðgun, mengun grunnvatns og landeyðingu. Þá geti notkun á tilbúnum áburði í landbúnaði verið mengandi, áburðarefni tapist út í andrúmsloftið, skolast burt úr jarðvegi og út í grunnvatn. Víða sé ofnotkun á tilbúnum áburði viðvarandi vandamál, því auk þess að vera mengandi sé um sóun á mikil­vægum auðlindum að ræða.

Í niðurstöðunum kemur fram að búfjáráburður sé langstærsta uppspretta nýtanlegra áburðarefna í dag. Búfjáráburður er almennt nýttur, með undantekningum. Önnur nýtanleg áburðarefni sem í dag eru ýmist urðuð, jarðgerð, unnin í kjötmjöl eru ekki eins stór í heildar samhenginu og óvissa ríkir um hversu stór hluti slátur­úrgangs og dýrahræja sé nýtanlegur sökum heilbrigðissjónarmiða.

Mykju frá landeldistöðvum er í dag að stórum hluta veitt í hafið en hún er þó vel aðgengileg. Fast efni er sigtað úr skólphreinsistöðvum en það inniheldur lífræn efni auk aðskotahluta.

Mikið magn næringarefna til spillis frá heimilum

Mikið magn af ónýttu lífrænu hráefni kemur frá heimilum, þar sem skólp og matur sem er sóað vega langmest. Í niðurstöðunum segir að flokkun lífræns úrgangs frá heimilum sé enn ekki orðin víðtæk og fari því að mestu með almennu sorpi. Ekki séu til innviðir til að vinna skólp og einungis mjög lítill hluti skólpvatns sé hreinsað í dag.

Þá fer mikið af næringarefnum til spillis í fiskeldi á Íslandi þar sem það fer að langstærstum hluta fram í sjókvíum og í dag ekki hægt að fanga næringarefni þaðan.

Matís hefur stýrt verkefninu, sem stutt var úr Markáætlun um samfélags­legar áskoranir um 150 milljónir króna til tveggja ára. Samstarfsaðilar eru Landbúnaðar­háskóli Íslands, Landgræðslan, Hafrannsóknastofnun, Landsvirkjun og Atmonia. 

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...