Sauðfjárbændur veita veitingastöðum viðurkenningu
Höfundur: HKr.
Föstudaginn 31. mars veittu íslenskir sauðfjárbændur viðurkenningar þeim samstarfsveitingahúsum sem þykja hafa skarað fram úr við að kynna íslenska lambakjötið fyrir erlendum ferðamönnum.
Þetta er í fyrsta sinn sem slíkar viðurkenningar eru veittar. Þriggja manna dómnefnd var skipuð þeim Hafliða Halldórssyni matreiðslumanni, sem var formaður nefndarinnar, Sigurlaugu M. Jónasdóttur, útvarpskonu hjá RÚV, og Dominique Plédel Jónsson hjá SlowFood Reykjavík. Hún valdi úr þá staði sem hljóta viðurkenningu að þessu sinni. Áætlað er að þetta verði árviss viðburður.
Viðurkenningarathöfn fór fram í Bændahöllinni við Hagatorg og hlutu eftirfarin veitingahús viðurkenningu:
- Lamb-Inn í Eyjafjarðarsveit.
- Hótel Smyrlabjörg í Suðursveit.
- Fiskfélagið Reykjavík.
- Fiskmarkaðurinn, Reykjavík.
- Íslenski barinn Ingólfsstræti, Reykjavík.
- Gallery restaurant Hótel Holti, Reykjavík.
- Grillið Hótel Sögu, Reykjavík.
- Matur og Drykkur, Reykjavík.
- Smurstöðin í Hörpu í Reykjavík.
- Vox Hilton Hótel, Reykjavík
Yfir 60 íslenskir veitingastaðir eru samstarfsaðilar bænda í verkefninu Icelandic Lamb og setja íslenskt lambakjöt í öndvegi. Árangurinn hefur farið fram úr björtustu vonum og sala á lambakjöti hjá samstarfsstöðunum hefur aukist verulega samhliða samvinnunni.
Þetta er hluti af stærra verkefni undir yfirskriftinni „Aukið virði sauðfjárafurða“. Auk veitingar viðurkenningar fór fram við sama tækifæri staðfesting undirskrifta tveggja samstarfssamninga. Það var við Íslandshótel og annar við eignartengd fyrirtæki undir nöfnunum Apótekið, Sushi Sosial, Tapas barinn og Sæta svínið. Alls falla undir þessa tvo nýju samninga um 20 veitingastaðir sem munu leggja áherslu á lambakjöt á sínum matseðlum.
Þessa má geta að meðal fjölbreyttra léttra veitinga úr sauðfjárafurðum sem veittar voru við þetta tækifæri var lambabacon sem vakti mikla lukku meðal viðstaddra.