SS greiðir bændum 2,5% ofan á innlegg ársins 2016
Um mánaðarmótin greiðir SS bændum sem lögðu inn hjá félaginu á síðasta ári 2,5% viðbótarinnlegg á afurðaverð síðast liðins árs.
Steinþór Skúlason, forstjóri, Sláturfélags Suðurlands, segir það stefnu SS að greiða bændum hluta af hagnaði félagsins, þegar reksturinn gengur vel, í formi viðbótargreiðslu á afurðaverð síðasta árs.
„Um er að ræða 2,5% á allt afurðainnlegg síðasta árs og er heildarupphæðin rúmar 48 milljónir. Afkoma SS á síðasta ári var sú besta í 110 ára sögu félagsins. Stefna okkar sem samvinnufélags er að greiða bændum hluta hagnaðar sé hann til staðar og miðað er við að 30% af hagnaði fari til eigenda og viðskiptamanna. Fyrst greiðum við vexti á A deild og arð á B deild og það sem er eftir upp í 30% greiðum við til bænda sem viðbótarafurðarverð liðins árs.“
Að sögn Steinþórs eiga bændur að mestu það sem hann kallar A deild og bændur og aðrir fjárfestar B deild.
„Við höfum áður greitt til bænda viðbótarafurðarverð þegar afkoman hefur verið góð og munum halda því áfram í framtíðinni þegar afkoman gefur færi á. Á Norðurlöndunum er þekkt að stór afurðafyrirtæki greið bændum með svipuðum hætti þegar reksturinn gengur vel.“