SS hættir við fyrirhugaða lækkun á afurðaverði nautgripa
Sláturfélag Suðurlands (SS) hefur hætt við að lækka afurðaverð á nautgripaflokkum eins og til stóð að gera frá 18. janúar. Í tilkynningu inni á vef SS kemur fram að félagið hafi endurmetið forsendur verðbreytinganna og ákveðið að falla frá verðbreytingunni.
Landssamband kúabænda (LK) gagnrýndi harðlega fyrirhugaðar breytingar í bréfi til SS. „Með gengdarlausum lækkunum á greinina undanfarin ár og núna boðuðum aðgerðum til að hvetja sérstaklega til samdráttar í framleiðslu óháð öllu er farið í þveröfuga átt. Skilaboðin eru einfaldlega þau að gæðin og sérstaðan skipta ekki máli, einungis að geta keppt við verð. Nú þegar greinin fer í gegnum gríðarlega erfiðan tíma sökum Covid-19 gerir LK þá kröfu að afurðafyrirtæki í eigu íslenskra bænda– og markaðssetur sig sérstaklega sem slíkt – standi með bændum,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður LK í bréfinu.
Gildandi verðskrá sláturleyfishafa má nálgast á vef SS.