SS slátrar um 100 þúsund fjár
Sláturtíðin hjá Sláturfélagi Suðurlands í sláturhúsinu á Selfossi hófst miðvikudaginn 6. september og stendur til 31. október.
Reiknað er með að slátrað verði um 100 þúsund fjár sem er svipað og á síðasta ári. „Við reiknum með að það verði 150 manns sem koma að sláturtíðinni með fastafólkinu okkar á Selfossi en af þeim hópi eru um 110 erlendir starfsmenn, sem eru ráðnir sérstaklega í sláturtíðina,“ segir Benedikt Benediktsson, framleiðslustjóri hjá Sláturfélaginu.
Afurðaverð hækkar um 19%
Hann segir að afurðaverð á lambakjötinu hækki um 19% frá fyrra hausti, auk þess sem greidd verður 5% viðbót á afurðaverð. „Það er líka gaman að segja frá því í tengslum við sláturtíðina að við höfum tekið í notkun nýtt og glæsilegt húsnæði fyrir starfsfólk á Þórhildarvöllum, sem er að Fossnesi fyrir neðan sláturhúsið. Þar er pláss fyrir 33 starfsmenn en það eru 11 í hverju húsi og húsin eru 3 talsins,“ segir Benedikt.