Svartfuglarnir reyndust ekki með fuglaflensuna
Matvælastofnun birti í dag umfjöllun um stöðu fuglaflensunnar í Evrópu, sem herjar þar á villta fugla og alifugla af svipuðum þunga og undangengna vetur, nema að núna er gerðin H5N1 ríkjandi. Sýni úr fjölda svartfugla sem drápust á Suðausturlandi í byrjun árs, reyndist ekki innihalda flensuveiruna en engin skýring er á fjöldadauðanum.
Er helst talið líklegt að svarfuglinn hafi drepist úr hungri, þó ekki sé hægt að fullyrða að það sé eina skýringin.
Fylgst er vel með þróun fuglaflensufaraldursins í Evrópu og er Matvælastofnun í sambandi við sérfræðinga í öðrum löndum. Greining á fuglaflensu á Nýfundnalandi gefur vísbendingar um að veiran geti hafa borist með farfuglum frá Evrópu, sem hafa viðkomu á Íslandi. Því þurfi fuglaeigendur að vera viðbúnir því að herða þurfi sóttvarnir á vormánuðum. Þannig má búast við því að þeir sem halda alifugla þurfi í vor að halda þeim í lokuðu gerði undir þaki, til að forðast mögulegt smit.
Ólíklegt að fólk smitist
Það er mat Matvælastofnunar að enn séu litlar líkur á að fólk geti smitast af þeim veirum sem finnast í Evrópu, en hvatt er til almennra sóttvarna við handfjötlun villtra fugla og fuglahræja.
Talin er full ástæða til að vakta tilvist fuglaflensu í villtum fuglum hér á landi í vetur, þó að farfuglatímabilið sé ekki hafið. Því er þeim tilmælum beint til almennings að tilkynna til Matvælastofnunar þegar villtur dauður fugl finnst, en það er hægt að gera í gegnum vefinn mast.is