Þróun á kjötframleiðslu styður ekki við markmið stjórnvalda um aukið fæðuöryggi
Talsvert hefur verið fjallað um mikilvægi fæðuöryggis landsins að undanförnu, bæði út frá auknum stríðsátökum í heiminum sem og aukinna náttúruhamfara. Það blasir því við að spyrja hver sé staðan í framleiðslu landbúnaðarafurða.
Áhyggjur vekur að svo virðist sem að áfram sé þróunin í þá átt að kjötframleiðsla á mann fari minnkandi hér á landi sé horft til fjölda íbúa og þeirra ferðamanna sem dvelja hér hlutfallslega á hverju ári. Ef tekið er tímabilið frá 2017 til ársins 2024 þá var kjötframleiðsla á mann sem seld var til neyslu innanlands 81 kg árið 2017 en var komin niður í 68 kg árið 2023 og hélst óbreytt árið 2024.
Á sama tíma hefur innflutningur á nautakjöti og alifuglakjöti aukist verulega. Þannig voru flutt inn 1.398 tonn af alifuglakjöti 2017 en 2.021 tonn árið 2023 en aðeins minna árið 2024, eða 1.877 tonn. Samtals nam aukning á innfluttu alifuglakjöti 34% fyrir tímabilið 2017 til 2024. Þá voru flutt inn 853 tonn af nautakjöti 2017 og 1.356 tonn árið 2024 sem samsvarar 59% aukningu fyrir tímabilið.
Árið 2020 þegar hrun var í fjölda ferðamanna vegna heimsfaraldursins, dróst innflutningur tímabundið saman á helstu kjöttegundum og þá sérstaklega á svínakjöti.
Sú staðreynd að kjötframleiðsla hafi dregist saman hér á landi frá 2017 til 2023 á sama tíma og innflutningur á kjöti hefur aukist er í andstöðu við stefnu stjórnvalda þar sem Landbúnaðarstefna til 2040 kveður á um að fæðuöryggi verði tryggt og að draga eigi verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Sú hvatning stjórnvalda í endurnýjuðum búvörusamningi frá árinu 2020 til aukinnar ræktunar á grænmeti á Íslandi virðist ekki hafa dugað til, því samkvæmt tölum Hagstofunnar þá hefur framleiðsla á íslensku grænmeti haldist nokkuð óbreytt undanfarin misseri og nemur um þriðjungi af neyslu grænmetis í landinu.
Það er því mikilvægt að horfa til leiða sem hvetur til aukinnar sjálfbærni í íslenskum landbúnaði, hvort heldur horft er til kjöt- eða grænmetisframleiðslu.
Þá þarf einnig að bera saman gæði innlendra og erlendra landbúnaðarafurða þar sem neytendur eru almennt að fá mun betri gæði þegar þeir kaupa íslenskar landbúnaðarafurðir þar sem notkun sýklalyfja í íslenskri landbúnaðarframleiðslu er almennt umtalsvert minni en í innfluttum landbúnaðarafurðum.